Íslenska ferðahandbókin 2009

Besta safn ferðaupplýsinga fyrir Íslendinga á netinu.

Um þessa bók

Þessi ferðahandabók er skrifuð fyrir Íslendinga sem eru á leið til útlanda og eru að skipuleggja ferðalag sitt. Hér á landi er mikil þörf á óháðum, hreinskilnum og gagnrýnum upplýsingum um ferðalög. Bókin er ætluð Íslendingum á öllum aldri.

Ég hef sjálfur samið ferðahandbækur og unnið sem leiðsögumaður um víða veröld í 20 ár þar sem ég hef ferðast einkum með hópa. Ég hef unnið hjá útgáfufyrirtækjunum Let's Go, Frommer's, og Rick Steves og sem leiðsögumaður hjá Rick Steves, Scandinavian Seminar/Elderhostel, Holland America Lines og Heimsferðum.

Ekki gleyma því að ferðahandbækur eru fljótar að úreldast, og byrja nánast um leið og þær eru gefnar út. Það er svo margt sem er svo fljótt að breytast: verð hækka í viðkomandi landi, hótel og veitingastaðir loka og svo framvegis. Allar ábendingar og athugasemdir eru því vel þegnar.

Mín nálgun

Með veraldarvefnum eru komnar nýjar og skilvirkari aðferðir til að skipuleggja ferð, en einnig nýjar áhættur og gildrur sem geta verið misvísandi fyrir ferðamenn og þeir jafnvel tapað peningum ef þeir fara þær leiðir. Markmið mitt er að finna og miðla til Íslendinga öruggum leiðum í gegnum þennan frumskóg upplýsinga, og að vera um leið gagnrýninn og meðvitaður um verð. Við viljum flestir styrkja gisti- og veitingastaði sem eru reknir af einlægni, en við höfum ekki öll tíma til þess að þefa þá uppi. En þessi bók á einmitt að hjálpa íslenskum ferðamönnum til þessa.

Allar upplýsingar sem gefnar eru í þessari bók eru óháðar og lausar undan áhrifum auglýsenda. Eg er ekki umboðsmaður neinna fyrirtækja, og ef ég mæli með einhverju það er vegna þess að það er það besta sem ég hef fundið. Ég gef þér ráð eins og þú værir frændi eða frænka. Ef þú smellir á krækju í þessari bók, fæ ég engar prósentur í staðinn. Ég reyni að segja satt og rétt frá.

Ég sel auglýsingar á þessum síðum, en ég birti ekki auglýsingar frá fyrirtækjum sem fjallað eru um í ferðahandbókinni, eða ef það gæti verið freistandi að vera annað en hreinskilinn.

Áfangastaðir

Markmið mitt í seinni köflum bókarinnar er að veita upplýsingar um ákvörðunarstaði sem höfða sérstaklega til íslenskra ferðamanna. Ég fjalla aðallega um helstu áfangastaði Íslendinga í Evrópu og Norður-Ameríku. Ég hef lagt áherslu á að finna íslensk fyrirtæki í útlöndum og gistingu sem er rekin af Íslendingum, þó að ég viti líka að margir Íslendingar vilja gjarnan fá smáhlé frá þjóðerni sínu þegar þeir eru í útlöndum! Þessar kaflar hafa vaxið að umfangi síðan á síðasta ári og ég hlakka til að bæta við fleiri uppáhaldsstöðum í framtíðinni.

Markmið mitt í gistingaupplýsingunum er að veita upplýsingar sem eru annars erfitt að finna. Ég hef valið gististaðina vegna þess að þeir eru sérstaklega skemmtilegir, sérstaklega hentugir, eða ódýrir miðað við hvað þeir bjóða upp á. Morgunmatur er innifalinn og herbergi eru með einkabaði nema að annað sé tekið frá.

Ég hef skoðað sum en ekki öll hótel hér. Samt byggist úrval mitt á nokkuð vandlegri úttekt og ég held að meðmæli mín séu frekar örugg. Ég væri þakklátur fyrir bæði reynslusögur eða ábendingar.

Það er nánast undantekning ef ekki þarf að fljúga frá Íslandi til þess að ferðast til útlanda. Vegna flugáætlana þarf oft að gista yfir nótt þegar skipt er um vél. Ég hef þvílagt sérstaka áherslu á hótel sem eru nálægt flugvöllum í þessari ferðahandbók. Eitt gott ráð fyrir þá sem vilja leita sjálfir að slíkum hótelum: ef hótel kallar sig "flugvallarhótel" (e. airport hotel), athugið þá að þarf alls ekki að þýða að hótelið sé á flugvallarsvæðinu. Stundum getur það verið svolitið langt frá flugvellinum — og mjög sjaldan í göngufæri. Mín reynsla er sú að það eina sem það má gera ráð fyrir hjá hóteli sem segist vera flugvallarhótel er að það er boðið upp á að skutla fólki og farangri ókeypis til og/eða frá flugvellinum, að minnsta kosti hluta dagsins. Ég hef reynt að hjálpa hér með því að greina á milli hótela sem eru virkilega hentug fyrir flugfarþega og þeirra sem bara markaðssetja sig þannig.

Pakkaferðir

Er betra að kaupa pakkaferð eða að sjá um þína eigin ferð?

Fleiri og fleiri Íslendingar skipuleggja ferðir sínar sjálfir, en undir vissum kringumstæðum er enn skynsamlegt að ferðast í hóp eða kaupa pakka frá ferðaskrifstofu.

Hér eru stærstu ferðaskrifstofurnar á Íslandi:

Þær bjóða upp á pakka- og hópferðir (þó að t.d. Ferðaþjónusta bænda sérhæfir sig frekar í hópferðum og Heimsferðir frekar í pökkum). Einnig Icelandair (www.icelandair.is/offers-and-bookings) og Iceland Express (expressferdir.is) selja pakka sem innihalda flugsæti og hótel.

Í pökkum er venjulega innifalið flug og þá hótelgisting á einn áfangastað, og stundum ferðir til og frá flugvellinum. Pakkar geta verið hentugir, sérstaklega til áfangastaða sem eru erfitt að komast til með flugi frá Íslandi. En það er oft hægt að kaupa bara flugsæti á sama áfangastaðinn og svo finna ódýrari gistingu með því að leita sjálf(ur).

Hópferðir þýða að þú ert þáttakandi í hóp sem hefur fararstjóra. Hópferðir fara oft til fleiri áfangastaða, einhverjar skoðunarferðir eru venjulega innifaldar, og flugið er oftast (en ekki alltaf) innifalið. Helsti kosturinn við hópferðir er að ferðaskrifstofan sér um alla skipulagsvinnu, tekur flestar ákvarðanir og sem ferðalangur eignast þú fullt af nýjum vinum og kunningjum. Helsta ástæða þess að forðast hópferðir er frelsissvipting. Þú stjórnar ekki dagskránni, þú þarft ef til vill að vakna á ákveðnum tíma á morgnanna til þess að fylgja henni og í þokkabót gæti þér ekki líkað við samferðamenn þína. Hópferðir eru stundum ódýrari en sama ferðin, sjálfsskipulögð. En stundum sparar þú með því að skipuleggja ferðina sjálf(ur).

Það eru minni ferðaskipuleggjendur á Íslandi, sumir þeirra eins manns fyrirtæki, sem sérhæfa sig í ákveðnum áfangastöðum. Kínaklúbbur Unnar hefur lengi boðið upp á árlega ferð til Kína (www.simnet.is/kinaklubbur). Bjarmaland, sem Haukur Hauksson á, býður upp á ferðir til Rússlands (www.bjarmaland.is). Þorleifur Friðriksson rekur Söguferðir (www.soguferdir.net), sem er með ferðir aðallega í Austur-Evrópu. Vínskólinn (www.vinskolinn.is) hefur skipulagt stuttar vinsmökkunarferðir til Frakklands og Suður-Evrópu. Vináttu- og menningarfélag Miðausturlanda (johannaferdir.blogspot.com) hefur skipulagt margar ferðir fyrir félagsmenn sína undanfarin ár. Það eru eflaust fleiri sjálfstæðir ferðaskipuleggjendur og ég myndi gjarnan vilja fá ábendingar um þá.

Ef þú talar ensku eða annað erlent mál, þá er tilvalið að fara í hópferð sem er skipulögð af erlendri ferðaskrifstofu. Reyndu að finna ferð sem er seld án flugs (e. "land-only"), sem þýðir að þú verður að komast á þann stað þar sem ferðin byrjar, á þann hátt sem þú velur. Einn kostur slíkra ferða er að komast alveg út úr íslenska samfélaginu: enginn þekkir þig og þú mátt vera hver sem þú vilt. Það er mikill fjöldi ferðaskrifstofa af öllum stærðum í Bandaríkjunum, Bretlandi og annars staðar. Elderhostel (www.elderhostel.org) býður upp á fræðsluferðir, sérstaklega fyrir eldri, menntaða Bandaríkjamenn (Elderhostel er regnhlífarfyrirtæki sem sér um sölu og markaðssetningu; ferðirnar eru skipulagðar af minni ferðaskrifstofum). Studiosus (www.studiosus.de) er einn besti þýski skipuleggjandi hópferða.

Ferðahandbækur og kort

Það er enn ánægjulegt að setjast niður með góða ferðahandbók. Höfundar ferðahandbóka skapa verðmæti með því að velja: þeir finna ákveðin hótel, ákveðna veitingastaði og aðra áfangastaði sem þeir telja aðlaðandi. Þeir hafa farið í gegnum haug upplýsinga, jafnvel skoðað og prófað, en sem lesandi færð þú aðeins þær upplýsingar sem mestu máli skipta og eru auk þess hagnýtar. Ferðahandbækur gefa lesendum oft yfirlitsmynd af áfangastöðum – allan skóginn – sem ekki er hægt að fá með því að skoða einstök "tré."

Meðal helstu ferðahandbókaraða eru Lonely Planet, Frommer's, Bradt Guides, Rough Guides, Rick Steves, Footprint, og Moon Publications. Michael Müller bækurnar eru mjög góðar fyrir þá sem skilja þýsku.

Því miður er úrval ferðahandbóka í íslenskum bókabúðum takmarkað og þær selja ekki alltaf þær bestu. Ég var t.d. í bókabúðinni Eymundsson nýlega og fann fullt af bókum frá Lonely Planet og Bradt en engar ferðahandbækur eftir Frommer's, Rough Guides, eða Footprint. Það má alltaf sérpanta frá útlöndum (best er að gera hjá Bóksölu stúdenta: boksala.is, og smelltu svo á "Sérpöntun").

Í stað þess að kaupa ferðahandbók, þá má fara í bókasafnið. Borgarbókasafnið í Reykjavík á hundruð ferðahandbóka. Þar eru kannski ekki nýjustu eintökin, en það er alltaf hægt að staðfesta tímanæm smátriði á netinu.

Það er því miður einn stór galli á ferðahandbókum: þær eru ekki uppfærðar nógu reglulega, og upplýsingar því úreltar, sem er vont fyrir lesendur. (Þess vegna kaupi ég ferðahandbækur frekar með því að líta á útgáfuárið en á fyrirtækið sem gefur út bókina.) Nálgun ferðahandbóka er líka mjög mismunandi. Það er erfitt að vita hvort höfundurinn hefur valið efni með þeim áherslum sem þér hentar. (Og ef allir eru með sama ferðahandbók, þá munu öll hótel í bókinni vera fullbókuð.)

Allra síðustu árin eru ókeypis ferðaupplýsingar, kostaðar með auglýsingum, orðnar miklu algengari á netinu. Þegar best gengur eru slíkar upplýsingar óháðar vegna þess að innihaldið og auglýsingarnar eru aðskildar. Það er reyndar lengri hefð fyrir slíkri útgáfu á pappír, og á Íslandi mætti nefna Reykjavík Grapevine og Á Ferð um Ísland sem dæmi um blöð og bæklinga sem eru rekin af af auglýsingatekjum eingöngu.

Afleiðing þessarar þróunar er að mikilvægi prentaðra ferðahandbóka eru talsvert að minnka. Það á sérstaklega við um Ísland, þar sem bækur eru dýrar. Það er því ódýrara að byrja að skipuleggja ferðina þína með því að nota netið (og bókasöfn) frekar en með því að kaupa bækur.

Fyrir neðan eru nokkrar góðar ferðaupplýsingavefsíður. Fyrstu síðurnar bjóða upp á upplýsingar um margar borgir víðs vegar um heiminn:

 • tripadvisor.com og booking.com: Þessar tvær vefsíður safna umsögnum ferðamanna um hótel um allan heim (veitingastaði líka á TripAdvisor). Á vefsíðunni booking.com, hakaðu við reitinn "I don't have specific dates yet" til að einfalda leitina.
 • inyourpocket.com: Ókeypis bæklingar um flestar borgir í Austur-Evrópu. Hægt að hala þær niður sem PDF-skjöl.
 • arrivalguides.com: Þessir stuttu PDF-bæklingar fjalla um um það bil 300 borgir um allan heim og það er oftast kort af borginni í bæklingnum. Upplýsingarnar eru hins vegar takmarkaðar og það á ekki að taka of mikið mark að meðmælum þeirra um veitingastaði og hótel.

Stundum er best að finna vefsíðu um einn áfangastað frekar en marga. Mér hefur fundist eftirfarandi vefsíður, sem eru sérhæfðar, sérstaklega góðar:

Þó að Wikipedia er að mörgu leyti fínt alfræðirit, hefur ferðavefsíðan þeirra (wikitravel.org) ekki heppnast eins vel, sennilega vegna þess að hvatningar höfunda virka ekki eins vel og í alfræðiritinu. Wikitravel er stundum með góðar lýsingar á áfangastöðum, en ég myndi ekki líta til síðunnar í leit að meðmælum um gistingu eða mat.

Það eru tvær aðrar íslenskar ferðavefsíður. Utlond.is, sem er í umsjón Sigurðar Más Jónssonar aðstoðarritstjóra Viðskiptablaðsins, er fínt safn umsagna um evrópska áfangastaði (sérstaklega gistingu og veitingastaði) svo sem London, Kaupmannahöfn, Glasgow, Berlín og Barcelona. Vefsíðan safnar líka fréttum um íslenska ferðamannageirann. Það er mikið af upplýsingum á vefsíðunni en það er stundum erfitt að bera saman staði vegna þess að þeir birtast á mismunandi blaðsíðum. Það er líka erfitt að vita hvenær ákveðin færsla var skrifuð. Utlond.is er fjármögnuð af auglýsingum.

Ferdalangur.net, í umsjón Margrétar Gunnarsdóttur, er með virkan póstlista og sendir út ferðatengdar fréttir og krækjur sem eru líka aðgengilegar á vefsíðunni. Ferdalangur.net er skemmtileg og áhugaverð vefsíða með mikið af upplýsingum. Vefsíðan er skipulögð sem bloggsíða, sem þýðir að það er stundum erfitt að finna upplýsingar um ákveðinn stað eða ákveðinn þemu. Ferdalangur.is er rekin fyrir prósentur sem fyrirtækið fær þegar heimsækjendur smella á krækjurnar á síðunni. Það þarf því að hafa það í huga að skoðanir á vefsíðunni eru ekki alltaf óháðar; stundum mælir Ferdalangur.is með sömu aðilum sem auglýstir eru á vefsíðunni. Margrét hefur nýlega haldið námskeið undir heitinu "Vertu þín eigin ferðaskrifstofa" og þau hafa að sögn allra verið vinsæl. Þau hafa verið auglýst á vefsíðunni.

Kort

Vegna hárra tolla á innfluttum landa- og staðarkortum á Íslandi eru þau mjög dýr. Ég mæli því með því að fólk kaupi frekar slík kort þegar komið er á áfangastað. Það eru venjulega fínar loftmyndir og kort af flestum löndum heimsins á vefsíðunni maps.google.com. Áður notaði ég líka www.viamichelin.com, en mig grunar að leitarvélin Google geri allt sem viamichelin.com gerir og það jafnvel betur. Best er að bíða með því að kaupa landa- eða staðarkort þangað til þú ert kominn á áfangastaðinn, en úrvalið er auk þess venjulega betra þar (og ókeypis kort eru oft fáanleg). Bestu kortabúðir heimsins, eins og Stanfords í London, eru mjög rómantískar (og ég sakna þess að versla í þeim) en netið er miklu hentugra.

Að kaupa flugmiða

Það er talið að kínverski heimspekingurinn Konfúsíus hafi mælt svo að tíu þúsund kílómetra ferð byrjaði á einu skrefi. Í dag byrjar tíu þúsund kílometra ferð á því að fara til Keflavíkur og jafnvel fyrr því hún hefst á því að bóka flugmiða, sem flestir gera nú í tölvunni sinni.

Til þess að yfirgefa Ísland, það þarf að fljúga í burtu frá eylandinu, sem þýðir í flestum tilfellum brottför með Icelandair eða Iceland Express. Stundum þarf að bóka tengiflug í Evrópu eða Bandaríkjunum, sen er ekki eins einfalt og það hljómar.

Ég hef aldrei borgað forfallagjaldið. Mér sýnist að forfallatryggingin sem Icelandair og Iceland Express vilja að ég kaupi bjóði upp á lítið umfram hefðbundnu bókunarskilyrðin og þá tryggingu sem kreditkortin eru með. (En mig langar að sjá heildstæða úttekt á þessu.)

Icelandair og Iceland Express selja pakka sem innihalda bæði flug og hótel. Þeir sem kaupa slíka pakka fá aðeins að velja þau hótel sem flugfélagið hefur samið við. Það er oftast ódýrara að kaupa bara flugið og svo finna ódýrara hótel sjálf(ur). En hótelverðin í pakkaferðunum eru stundum sæmileg og kosturinn er tímasparnaður.

Bæði Icelandair og Iceland Express bjóða upp á "samninga" við fyrirtæki og stofnanir á Íslandi. Mín reynsla af þessum samningum er að þeir minnka bókunarkvíða með því að tryggja hófleg fargjöld (þó að sértilboð geta verið enn lægri en samningsbundin fargjöld). Icelandair er með vefsíðu sem lýsir fyrirtækjaþjónustu sinni.

Síðasta ráðið mitt: Taktu samloku með. Hjá báðum flugfélögum verður þú að borga fyrir matinn um borð. Þú sparar með því að taka eigin mat með, og mér finnst það huggulegra.

Icelandair

Þó að Icelandair fái nú miklu meiri samkeppni en áður er það engu að síður stærsta flugfélagið og er öflugast í millilandaflugi frá Íslandi auk þess sem það er með einokun á flugi til Bandaríkjanna. Það er best að bóka á vefsíðunni (www.icelandair.is), því að símabókanir eða bókanir á skrifstofunni kosta aukalega. Kostir Icelandairs eru mikið úrval áfangastaða og Vildarklúbburinn. Það er nú hægt að bóka aðra leið hjá Icelandair á raunhæfu verði, sem er sennilega að hluta til jákvæð afleiðing samkeppninnar frá Iceland Express. Vefsíða fyrirtækisins var einu sinni mjög pirrandi en er nú mikið bætt, nema þegar það þarf að bóka tengiflug (vefsíðan býður ekki upp á nógu mörg möguleg flug).

Farþegar hjá Icelandair eiga tvímælalaust að skrá sig í Vildarklúbbinn og að skoða punktastöðu sína á netinu einu sinni eða tvisvar á ári (til þess þarf notendanafn og lykilorð). Punktar fyrnast í lok þriðja árs eftir að þeir berast svo gættu þess að nota þá áður en það gerist.

Það er hægt að fá punkta fyrir hverja færslu hjá sumum kreditkortum. En það er ekkert ókeypis hér og korthafar borga fyrir þessa punkta á einn eða annan hátt, annaðhvort með hærri árgjöldum eða hærra verði. Ég mæli með því að takmarka þann tíma sem þú eyðir í að hugsa um flugpunkta.

Flestir farþegar Icelandair eru evrópskir eða bandarískir. Stefna flugfélagsins hefur verið að fljúga til minni flugvalla báðum megin við Atlantshafið (t.d. Minneapolis og Osló) þar sem það eru engin bein flug og það að þurfa að skipta um vél í Keflavík er ekki ókostur. Íslendingar njóta góðs af þessari stefnu með því að fá miklu breiðari úrval áfangastaða en 300.000 manna samfélag gæti annars haldið uppi.

Iceland Express

Iceland Express (www.icelandexpress.is) er klassískt lágfargjaldaflugfélag, sem þýðir að það selur alla farmiða aðra leið; það rekur engan Vildarklúbb; og það reynir ekki einu sinni að semja við önnur flugfélög um að selja tengiflug. Iceland Express hentar best þeim Íslendingum sem fljúga oft á milli Íslands og Kaupmannahafnar, London eða Þýskalands, sem og þeim sem þurfa ekki að halda áfram flugleiðis til annarra áfangastaða. Áherslan á að selja miða aðra leið hentar þeim sem vilja fljúga á einn stað og koma til baka frá annarri borg, eða með Norrænu. Iceland Express ætlar einnig að bjóða upp á beint flug frá Akureyri til Kaupmannahafnar á árinu 2009.

Að bóka hjá Iceland Express er aðeins einfaldara en hjá Icelandair, að mestu leyti vegna þess að allir miðar eru e-miðar og seldir aðra leið, það er eins og áður segir ekki hægt að bóka tengiflug og þar er enginn Vildarklúbbur. Þó að Iceland Express nefni sig "lágfargjaldaflugfélag," er það mín reynsla að Iceland Express er ekkert ódýrara en Icelandair. Verðin eru sambærileg. En mér finnst Iceland Express aðeins einlægara en Icelandair. Mér finnst a.m.k. mikilvægt að fljúga með Iceland Express til þess að veita Icelandair samkeppni. Án Iceland Express hefði Icelandair sennilega aldrei haft fyrir því að lækka verð, bæta vefsíðu sína og almenna þjónustu.

Önnur flug

SAS til Oslóar. Önnur flugfélög reyna reglulega að festa rætur á íslenska markaðinum og SAS er hið nýjasta. Þetta er fínn kostur fyrir þá sem eru aðeins á leiðinni til Oslóar en ekki fyrir þá sem þurfa að fljúga til annarra áfangastaða. Ástæðan er sú að lent er svo seint í Noregi að ekki er hægt að ná framhaldsflugi – það þarf að gista í Osló. Ég hef séð ágæt verð hjá SAS frá Íslandi til Asíu (t.d. Tokyo), en þá er í raun og veru flogið í gegnum Kaupmannahöfn. Vefsíðan er www.flysas.is.

Sumarflug til Þýskalands. Að minnsta kosti eitt af leigu- eða lágfargjaldaflugfélögum í Þýskalandi býður venjulega upp á flug til Íslands á sumrin. Árið 2009 mun Germanwings (www.germanwings.com) fljúga á milli Bonn/Köln og Keflavíkur frá miðju maí til miðju september.

Flugsæti í leiguflugum. Íslenskar ferðaskrifstofur (sjá listann að ofan) sjá um leiguflug til ýmssa áfangastaða allt árið. Meginmarkmið þess að reka leiguflug er að selja pakka (flug, hótel, og stundum skoðunarferðir) og það má alveg skoða hvort það sé þess virði að kaupa pakka. En oftast er líka hægt að kaupa aðeins flugsæti. Ég hef sjáldan séð frábært verð hér, en verðið er venjulega ásættanlegt, og helsti kosturinn er að fá beint flug til einhvers áfangastaðar þar sem þarf venjulega að fara í gegnum London eða Kaupmannahöfn með allri tilheyrandi fyrirhöfn. Icelandair og Iceland Express bjóða stundum upp á "áætlunarflug" sem eru mjög sjaldan flogin og eru í raun og veru eins og leiguflug.

Flug til Færeyja og Grænlands. Þau eru flogin af Air Iceland og bókanir fara fram á vefsíðunni www.airiceland.is.

Að bóka tengiflug

Nú þarft þú að komast til borgar þar sem það er ekkert beint flug frá Íslandi. Það gæti verið í Suður-Evrópu, í Asíu eða Miðausturlöndunum, eða í Norður- eða Suður-Ameríku. Hér eru nokkrar hugmyndir um hvað er hægt að gera:

Skref 1. Prófaðu vefsíðu Icelandair. Af og til býður hún upp á fargjald, alla leið, á sæmilegu verði. Að finna ásættanlegt fargjald frá vefsíðu Icelandairs þýðir að tengiflugið er tryggt. Tryggt tengiflug þýðir að ef fyrsta fluginu seinkar, þá tekur flugfélagið að sér áhættuna ef það þarf að endurbóka seinna flugið. En vertu ekki með of miklar væntingar eftir lestur vefsíðu Icelandair. Það er líklegra að vefsíðan bjóði upp á 200.000 kr. fargjald án þess að gefa einu sinni í skyn að slíkt sé nokkuð hátt verð. Samstarf Icelandair við önnur flugfélög er ekki mikið og það tekur ekki þátt í alþjóðlegum samstarfsnetum, ólíkt mörgum öðrum flugfélögum. Það er samt hægt að bóka tengiflug á vefsíðu þeirra (t.d. með Icelandair til Kaupmannahafnar og svo með Austrian Airways til Vínar), en verð fyrir slík tengiflug eru hins vegar ekki alltaf samkeppnishæf. En áður en þú gefst upp því að reyna að bóka hefðbundið tengiflug, má prófa vefsíðuna SAS. Ef það gengur ekki heldur þar, þarftu þú að velja á milli tveggja kosta sem báðir eru vondir: að kaupa farmiða frá Icelandair á yfirleitt dýru verði en með tryggu tengiflugi (Icelandair tekur ábyrgð ef þú kemst ekki í seinna flugið), eða að kaupa tengiflugsmiðann sjálf(ur) á lægra verði og taka áhættuna sjálfur ef fyrra fluginu skyldi seinka þar sem þú þarft að greiða nýtt seinna flug ef þú nærð ekki því sem þú hafðir bókað. Ef þú velur að taka tengiflugsáhættuna sjálfur, lestu þá kaflann sem heitir "Tengiflugsáhætta" (fyrir neðan), og haltu áfram í skrefi 2.

Skref 2. Farðu á vefsíðu sem er sérhæfð í að finna tengiflug og gefðu upp KEF (Keflavík) og áfangastaðinn þínn. Dohop.is er ein besta vefsíða, sem skoðar bæði gömlu, góðu flugfélögin en einnig lágfargjaldaflugfélögin sem taka ekki þátt í bókunarkerfi gömlu flugfélaganna. Það má líka prófa momondo.com, kayak.com, og trabber.com, sem eru leitarvélar sem leita á öðrum leitarvélum. Til að leita hjá gamalgrónu flugfélögum, mér finnst enn gott að nota vefsíðuna www.itasoftware.com, sem var einu sinni byltingarkennd (það þarf að smella á "search airfares using QPX" og svo "log in as a guest"). En reyndu að bóka EKKI miðann þinn hjá þessum leitarvélum, heldur hjá flugfélaginu (ef það býður upp á sama eða sambærilegt fargjald).

Skref 3. Það eru ekki öll flugfélög sem birtast í niðurstöðum þessara leitarvéla. Til dæmis, Southwest Airlines, eitt besta lágfargjaldaflugfélag í Bandaríkjunum, leyfir leitarvélum ekki að leita í gagnagrunni sínum. Annað dæmi: á meðan ég var að skrifa þennan kafla, þá birtust sumarflug hjá Germanwings árið 2009 á vefsíðu Germanwings en ekki í leitarniðurstöðum á Dohop.is. Ef ekkert gott kemur í ljós hjá leitarvélunum, það er skynsamlegt að reyna að skoða hvaða lágfargjaldaflugfélög fljúga á áfangastaðinn. Whichbudget.com er mjög góður listi lágfargjaldaflugfélaga þar sem flugfélögunum er raðað upp eftir áfangastöðunum.

Skref 4. Ef þú ert að ferðast um á áfangastað í Evrópu, íhugaðu það að halda ferðinni áfram með lest. Það getur oft verið einfaldast að fljúga á næsta flugvöll við áfangastaðinn sem er með beint flug frá Íslandi, og taka svo lest á lokaáfangastaðinn. Sumir flugvellir (einkum Frankfurt, Kaupmannahöfn, og Amsterdam) eru sérstaklega vel tengdir inn í hraðlestarkerfið í Evrópu. Það er almennt minni fyrirhöfn að ferðast með lestum en að fljúga. Það er minni hætta á seinkunum eða að farangur týnist. Ef þú missir af lest, þá er minni fyrirhöfn og kostnaður með því að taka seinni lest en með því að taka seinna flug. Góð dæmi um ferðir þar sem gott er að fljúga og svo taka lest eru: Reykjavík til Brussel (í gegnum Amsterdam eða París); Reykjavík til Prag (í gegnum Berlín); Reykjavík til München (í gegnum Frankfurt eða Friedrichshafen); Reykjavík til Zürich (í gegnum Friedrichshafen); Reykjavík til Kalmar (í gegnum Kaupmannahöfn). Það má heldur ekki gleyma rútum og ferjum: þeir sem ætla að ferðast til borgarinnar Tallinn í Eistlandi geta flogið til Helsinki í Finnlandi og tekið síðan ferju þaðan til Tallinn.

Tengiflugsáhætta

Vandinn við að bóka tengiflug hjá tveimur mismunandi fyrirtækjum er að þú tekur þá ákveðna áhættu. Ef fyrsta fluginu seinkar, þá mun hitt fyrirtæki líklega ekki sýna þér neina samúð missir þú þess vegna af seinna fluginu. Eitt sinn fór ég t.d. með flugi frá Keflavík til Oslóar, sem varð dálítil seinkun á, en svo mikil að ég missti af tengifluginu til norðurhluta Noregs. En af því að ég hafði keypt miðann alla leið hjá Icelandair, var miðinn minn endurbókaur endurgjaldslaust. Aðrir farþegar í þessu flugi sem keypt höfðu miða frá Osló til Þrándheims hjá öðrum flugfélögum (ekki í gegnum Icelandair) þurftu að kaupa nýja miða á eigin kostnað.

Til að halda tengiflugsáhættu í lágmarki, hafðu þá eins mikinn tíma og hægt er á milli áfanga ferðarinnar. Ef hægt er, gistu yfir nótt. Kostnaður vegna gistingar er minni en útgjöldin ef fólk er ekki nógu sveigjanlegt með tímasetningar vegna seinna flugsins.

Ekki gleyma því að þegar það flogið er til annars lands og svo haldið áfram í innanlandsflugi, að það þarf að sækja farangur, fara með töskurnar í gegnum tollinn, og svo innrita þær aftur fyrir næsta flugið. (Þetta á ekki við innan Schengen-svæðisins en á við til dæmis í Noregi og Bandaríkjunum.) Þetta tekur tíma og eykur tengiflugsáhættuna.

Tengiflugsáhættan á líka við þegar þú heldur ferðinni áfram í lest, rútu eða á ferju og þegar seinni miðinn er bundinn við ákveðna brottför. Þetta þarf sérstaklega að hafa í huga í löndum eins og Svíþjóð og Þýskalandi, þar sem lestarmiðar sem keyptir eru með afslætti gilda bara í einni lest (það þarf að borga breytingargjald ef þú verður að fara með seinni lest). Sama ráð gildir einnig hér: gefðu þér góðan tíma á milli komu flugsins og brottfarar lestarinnar til þess að minnka áhættuna um að þurfa að borga breytingargjöld.

Vefsíðan flightstats.com veitir ókeypis upplýsingar um stundvísi flugfélaganna og jafnvel einstakra fluga, sem stuðlar að góðum ákvörðunum um hversu mikinn tíma má áætla á milli einstakra áfanga ferðarinnar (smelltu á "On-Time Performance Ratings").

Keflavíkurflugvöllur

Stækkun flugvallarins hefur búið til miklu meira rými í flugstöðinni okkar, þó að hún hafi líka svipt flugstöðina hinni huggulegu, heimilislegu tilfinningunni sem hún hafði. Flugstöðin var einu sinni bygging sem Íslendingar voru sérstaklega stoltir af, en nú er hún bara eins og hver önnur alþjóðleg flugstöð.

Vefsíða flugvallarinnar, www.leifsstod.is, hefur allar nýjustu upplýsingar um komur, brottfarir og seinkanir. Vefslóðin www.airport.is beinir á sömu vefsíðuna. Sumir nota ennþá upplýsingarnar á www.textavarp.is/400, en mér finnst airport.is snöggri og betri. Stundum eru fleiri upplýsingar að finna á vefsíðu viðkomandi flugfélags.

Endilega fylgstu grannt með ef það lítur út fyrir að brottför flugs þíns seinki. Hringdu í flugfélagið ef þörf er á. Meðal þess sem helst hefur verið kvartað yfir hjá báðum íslensku flugfélögunum, Icelandair og Iceland Express, á undanförnum árum, er að farþegar hafa ekki fengið nægilegar upplýsingar þegar flugi þeirra seinkar.

Að koma frá Reykjavík til Keflavíkur

Mitt ráð er að reyna að finna einhvern til að keyra þig til Keflavíkur. Í janúar 2009 var eldneytiskostnaður þess að keyra frá Reykjavík til Keflavíkur og til baka (segjum 10 litrar af bensíni sem kostar 140 kr./litra) um það bil eins og farmiðaverð aðra leið í Flugrútuna (1500 kr.) – kostnaður við að komast á rútustoppistöðina ekki meðtalinn. Ef þú finnur einhvern sem getur keyrt þig út á völl og borgar bensínið kostar það aðeins minna en að taka rútuna, jafnvel ef þú ert ein(n) á ferð! Ef að minnsta kosti tveir ferðast saman, það er engin spurning um sparnaðinn.

Ef enginn getur keyrt þig, berðu þá saman kostnað þess að keyra sjálf(ur) til Keflavíkur og að geyma bílinn þar, við það að að ganga, fá far eða taka leigubíl til BSÍ (eða annarar stoppistöðvar flugrútunnar) og taka þaðan flugrútuna til Keflavíkur. Ef þú ert ein(n), eða ætlar að vera lengi í útlöndum, þá sparar þú venjulega með því að taka rútuna, eins lengi og þú kemst áuðveldlega á BSÍ eða aðra stoppistöð. Kostur flugrútunnar er líka að hún keyrir þig að dyrum flugstöðvarinnar, og þú þarft hvorki að leita að bílastæði, ganga frá því að flugstöðinni eða keyra ef þú ert þreyttur, t.d. snemma að morgni. Því fleiri sem eru á ferð og því styttri ferðin er, því skynsamlegra það er að keyra til Keflavíkur og geyma bílinn þar.

Bílastæðin í Keflavík

Langtímabílastæðið er hinum megin við veginn, norðan við flugstöðina. Bilastæðin við flugstöðvarbygginguna eru skammtímastæði: ekki geyma bílinn þar í viku, það kostar helling!

Það er hægt að greiða með kreditkorti (en ekki með debetkorti) bæði í langtíma- og skammtímabílastæðum, í sjálfsölunum við hliðin eða með því að fá miða og borga svo við afgreiðsluborðið í anddyri komufarþega flugstöðvarinnar (opið allan sólarhringinn, s. 425-0444). Langtímabílastæðið kostar 630 kr. á dag fyrstu sjö daga; 200 kr. á dag 8.-12. dagana; 470 kr. á dag 12.-14. dagana; 110 kr./dag 15.-20. dagana; og 350 kr./dag frá 21. deginum. Tafla sem sýnir þessu er á vefsíðunni www.airport.is/menu/samgongur/bilastaedi.

Flugrútan

Allar áætlanir flugrútunnar eru á vefsíðunni (www.flugrutan.is eða www.flybus.is), og það má hringja í flugrútuna í síma 562 1011. Ef umferðin er lítil, er rútan 40-50 mínútur að keyra frá BSÍ til Keflavíkur, en tekur stundum lengur. Venjulegur farmiði kostar 1500 kr. en þeir sem biðja um miða fram og til baka fá tvo miða fyrir 2700 kr., eða 1350 kr. fyrir hvorn. Þetta sparar peninga og miðarnir fyrnast ekki. Þó að það standi "Reykjavík-Keflavík" og "Keflavík-Reykjavík" á miðunum, þá hefur það aldrei vakið neina athygli þegar ég hef t.d. notað miða merktan "Keflavík-Reykjavík" á ferð frá Reykjavík til flugvallarins. Lexían: Aldrei kaupa bara einn flugrútumiða.

Á leiðinni frá BSÍ til flugvallarins stoppar rútan við Bitabæ í Garðabæ og Fjörukrána í Hafnarfirði.

Bílastæðið við BSÍ er ókeypis og sumir leggja bílinn sinn þar og taka svo flugrútuna til Keflavíkur. Ég mæli ekki með þessu, vegna þess að bílastæðið er lítið, og ekki vaktað á neinn hátt. Hins vegar er langtímabílastæðið við flugvöllinn ekki vaktað heldur og tekur enga ábyrgð á bílum sem þar standa.

Innritun og brottför

Nýju sjálfsinnritunarvélarnar eru frábærar og spara tíma, en eru enn sem komið er aðeins fyrir farþega Icelandair.

Flugstöðin auglýsir á vefsíðu sinni að farþegar njóta þráðlauss aðgangs að Internetinu fyrir fartölvur sínum í flugstöðinni. Það sem er ekki sagt er að þetta kostar: 490 kr. fyrir einn klukkutíma og 990 kr. fyrir fjóra tíma. Þú borgar með kreditkorti í vafraglugga eftir að fartölvan tengist netinu. Fjögurra tíma pakkinn getur verið þess virði fyrir farþega sem þurfa að dunda sér í flugstöðinni út af seinkun, en mér finnst verðið fyrir einn klukkutíma svolítið hátt. Það eru ókeypis tölvur (og morgunmatur!) í betri stofu flugstöðvarinnar fyrir þá heppna sem fljúga í fyrsta farrými.

Fríhöfnin

Það eru ýmsar góðar ástæður fyrir að versla í fríhöfninni í Leifsstöð. Þeir sem eru að koma frá útlöndum fá að kaupa áfengi til nota hér á landi á miklu lægra verði en í ÁTVR. Sparnaður er mestur á sterku áfengi, minni á bjór og minnstur á léttvíni. Einnig er einhver sparnaður í boði á tónlist og raftækjum. Þú sparar ekkert á sælgæti í fríhöfninni, en úrval á erlendu sælgæti er gott. Það er jafndýrt að kaupa íslenskt sælgæti í Bónus. Ekki gleyma að allt sem keypt er í fríhöfninni er tollskylt, eins og það hafði verið keypt erlendis. Vöruverð í útlöndum eru venjulega lægri en í fríhöfninni. Þannig að það er best að versla í útlöndum þegar hægt er. Flest verð í fríhöfninni (ekki fyrir raftækjur) eru birt á vefsíðunni, www.frihofn.is.

Farþegar á leiðinni til útlanda geta verslað í fríhöfninni á efri hæð flugstöðvarinnar. Það er sjálfsagt að kaupa íslenskt áfengi til þess að taka með erlendis í flugstöðinni. En að kaupa sælgæti eða annað íslenskt dót (fána, lunda o.s.frv.) fyrir vini í útlöndum í fríhöfninni er ekki eins góður kostur. Þú verslar eftir að hafa innritað farangur þinn, þannig að það þýðir í raun viðbót við þyngdartakmarkanir á farangri; á hinn boginn er þyngdareftirlit í Leifsstöð ekki sérstaklega strangt til að byrja með.

Fleiri upplýsingar er að finna í grein sem ég skrifaði um fríhöfnina Neytendablaðið (júní 2008). Upplýsingar um tollfríðindi og tolla eru í kaflanum sem heitir "Að versla í útlöndum."

Að pakka niður

Það þarf að hugsa vel um handfarangur þessa daga — vasahnífurinn verður að vera í innritaðri tösku og það má ekki taka meira en örlítið af vökva með. Ítarlegar leiðbeiningar um það sem má og má ekki hafa í handfarangri eru á vefsíðunni www.leifsstod.is.

Sé flogið til Evrópu er heimilt að hafa með sér 20 kg af farangri. Farþegar í Saga farrými hjá Icelandair má vera með allt að 30 kg. Innritunarfulltrúar í Leifsstöð gera sjaldan mál úr því að farþegar séu með aðeins of þungar töskur og ég hef reyndar flogið með 28 eða 29 kíló. En mér skilst að jafnvel íslenskur sveigjanleiki sé á þrotum við farþega sem reyna að taka meira en 25 og hvað þá 30 kíló með.

Reglurnar eru öðruvísi fyrir farþega til Bandaríkjanna og Kanada. Það má taka tvær töskur með og hver taska má vera allt að 23 kíló (50 pund) að þyngd. Það sama á við flug til baka til Íslands. Fyrir flug innan Bandaríkjanna eða Kanada innheimta öll flugfélög nema Southwest gjald fyrir hverja tösku sem stigmagnast ef taskan er þyngri en 50 pund.

Á flugvöllum í Evrópu er farið nákvæmar eftir reglunum þegar farþegar eru á leið til Íslands. Það er sérstaklega strangt í Frankfurt. Þar þarf stundum að borga yfirvigt fyrir að vera 2-3 kílóum umfram heimildina. Það er almennt farið strangt með þyngdarreglunum í útlöndum. Lágfargjaldaflugfélög í Evrópu eru sérstaklega ströng. Ryanair tekur gjald fyrir hvert stykki og takmarkar hvern farþega við 15 kíló (gjaldið er lægra ef greitt er við bókun). Það þarf að borga hjá mörgum félögum jafnvel fyrir eitt aukakíló.

Mitt ráð er að það þarf nú að skoða farangursreglur fyrirfram og að vera kunnugt um þær þegar verð eru borin saman. Í Bandaríkjunum reyni ég alltaf að fljúga hjá félögum eins og Southwest til að halda innritunargjöldum í lágmarki. Ég kanna líka ávallt hvort hægt er að taka lest eða aðrar yfirborðssamgöngur í stað þess að fljúga.

Það er ákveðin kaldhæðni í því að þegar tveir farþegar innrita sig og sitja hlið við hlið í flugvél á leiðinni frá Frankfurt til Keflavíkur, sá sem heldur áfram til Bandaríkjanna fær að taka meira farangur (46 kg) en sá sem fer til Íslands (20 kg). Það er sérstaklega ósanngjarnt vegna þess að kílómetraverðið á fargjaldinu frá Frankfurt til Bandaríkjanna er venjulega ódýrara en frá Frankfurt til Íslands og stundum er jafnvel allur farmiðinn ódýrari! Gjaldið fyrir yfirvigt á milli Íslands og Evrópu er fáranlega hátt. Hvort það verður innheimt fer að hluta til eftir skapi innritunarfulltrúans. Það er mjög auðvelt og algengt að algjörlega venjulegt fólk taki, ásetningarlaust, aðeins of mikinn farangur með. (Að vita ekki hvort innritunarfulltrúinn mun framfylgja reglunum orsakar togstreitu hjá farþeganum og valdamismun á milli hans og innritunarfulltrúans.) Reglur hjá fyrirtækjum eins og Ryanair jaðra við siðlaust viðskiptamódel þar sem viðskiptavinir eru hvattir til að "gera mistök" og þurfa svo að borga fyrir þau. Það er ekki spurning um að það vantar sanngirni og réttlæti í heimi innritaðs farangurs.

Ferðatöskur

Ég hef síðustu ár oftast keypt ferðatöskur í bandarískum stórmörkuðum, eins og Walmart og Target. Það er vissulega hægt að kaupa mjög fallegar harðar ferðatöskur, en þær eru oft þungar og dýrar. Þegar öllu er á botninn hvolft eru ferðatöskur til þess gerðar að vera notaðar og ef þær verða ónýtar, sem gerist yfirleitt fyrr en síðar, er þeim hent. Mér finnst hagstætt að kaupa fjögurra stykkja ferðatöskusett sem kostar 99 dollara í Walmart og svo hafa engar áhyggjur þótt dældir og rispur komi á töskurnar.

En í stað þess að henta gömlum töskum, geta þær fengið nýtt líf hjá Töskuviðgerðinni, á Ármúla 34 í Reykjavík (s. 581-4303, opið mán-fim 10:00-18:00, fös 10:00-17:00, lokað lau-sun). Ég hef tvisvar farið þangað og þjónustan hefur verið skjót og góð. Síðast borgaði ég 1.400 kr., sem mér fannst hóflegt fyrir að láta sauma eina tösku.

Þeir sem koma heim til Íslands með töskur sem reynast vera skemmdar vegna meðhöndlunar í flugi geta fengið bætur frá Icelandair og Iceland Express. Eitt sinn voru stoðirnar í töskunni minni beyglaðar eftir flug frá Milanó til Reykjavíkur. Ég fór með töskuna á skrifstofu Icelandair á Loftleiðum og fékk miða um að ég mætti fara með hana í Töskuviðgerðina. Ég fór þangað með töskuna og fékk hana aftur eftir viðgerðina, mér að kostnaðarlausu.

Að ferðast á sjó: Norræna (og Eimskip)

Það eru fjórar góðar ástæður til að ferðast með Norrænu frá Seyðisfirði. Fyrsta ástæðan er ef þú vilt eða þarft að flytja bíl á milli Íslands og Færeyja eða Evrópu. Önnur ástæða er sú að ef þú býrð austarlega á landinu og ert á leiðinni til Færeyja; þá er auðveldara að fara með skipi en að fljúga til Reykjavíkur og svo áfram. Ef þú ert flughrædd(ur) þá gæti það verið þriðja ástæðan. Og su fjórða gæti einfaldlega verið sú að þér fyndist gaman að ferðast á sjó og þér sé sama um aukatímann og kostnaðinn sem því fylgir.

Helsti galli þess að fara með Norrænu er að það tekur tíma. Það tekur a.m.k. tvo sólarhringa frá Seyðisfirði til Danmerkur og tvo sólarhringa til baka (nær 60 klukkutímum á vorin og haustin þegar það er siglt til Esbjerg). Þá fer mikill tími í að keyra austur og stundum þarf að gista á Seyðisfirði á meðan beðið er eftir skipið. Brottsiglingin er stundum kl. 20 og það þarf að innrita sig tveimur tímum fyrir. Það væri hægt að keyra alla leið frá Reykjavík sama daginn með því að fara mjög snemma af stað, en það er skynsamlegt að keyra daginn áður eða að gista einhvers staðar á leiðinni þar sem vegalengdin er 681 km.

Norræna er því ekki besti kosturinn fyrir þá sem vilja bara skreppa til Köben yfir helgi. Það gæti jafnvel verið betri kostur fyrir þá sem ætla aðeins að fara frá Reykjavík til Færeyja. Þeir eiga helst að fljúga.

Á árinu 2009 siglir Norræna til Íslands einungis frá apríl til september. (Veturinn 2006-2007 var reynt að sigla allt árið til Íslands en tilrauninni hætt eftir þann vetur.) Áætlunin hefur verið endurskipulögð. Norræna mun ekki lengur sigla til Noregs og Skotlands. Siglt verður til Hansthólms í Danmörk frá því um miðjan júní til lok ágúst. Á vorin og haustin verður siglt til Esbjerg. Þessar breytingar eru afleiðingar mikillar naflaskoðunar hjá Smyril Line eftir talsvert tap á rekstri skipsins. Áhugasamir geta lesið ítarlega umfjöllun um breytingar á vefsíðu Smyril Line.

Háannatíminn hjá Norrænu er frá miðjum júní til loka agúst. Verðið lækkar mikið báðum megin við þennan tíma. Það er erfitt að skilja verðskrá skipsins. Það þarf að leggja saman nokkra þætti: farþegagjald, bílagjald, gisti gjald (svefnpokapláss kostar ekkert) og bókunargjald. Á lágannatímanum árið 2008 fóru tveir fullorðnir og einn bíll til Danmerkur og svo heim fyrir aðeins 58.000 kr. (gisting í svefnpokaplássi). Sama ferð á háannatíma með gistingu í tveggja manna herbergi kostaði 196.200 kr. Þú sparar venjulega lítið með því að skila bílinn eftir heima; bíllinn kostar aðeins örlítið meira.

Íslenska vefsíðan er www.smyril-line.is, en ítarlegri upplýsingar, þar á meðal myndir af gistimöguleikum, eru að finna á færeysku vefsíðunni www.smyril-line.fo. Norræna er með tvær skrifstofur á Íslandi, á Seyðisfirði (Austfar ehf, Fjarðargötu 3, 710 Seyðisfjörður, s. 472-1111, austfar@smyril-line.is) og i Reykjavík (Norræna ferðaskrifstofan, Stangarhyl 1, 110 Reykjavík, s. 570-8600, info@smyril-line.is).

Hér eru tveir góðir möguleikar fyrir þá sem vantar gistingu á Seyðisfirði. (Það er ráðlagt að panta fyrir fram næturnar fyrir og eftir komu skipsins.) Þóra Guðmundsdóttir rekur Farfuglaheimilið Hafaldan, sem er ódýrt. Það eru sjö fjögurra koja herbergi með vaski, baðherbergi og eldhúsi sem er á gangi (eitt rúm 2500 kr, tveggja manna herbergi 6000 kr, rumföt 750 kr á mann, afsláttur fyrir félagsmenn BÍF, s. 472-1410, hafaldan@simnet.is, www.isholf.is/hafaldan). Hótel Aldan, í sögulegu húsi frá 19. öld, býður upp á níu herbergi með baði (eins manns €110, tveggja manna €145, morgunmatur innifalinn, ódyrari utan sumarmánaða, það má spyrja um ódyrari herbergi í Hótel Snæfell, Norðurgötu 2, 710 Seyðisfjörður, s. 472-1277, hotelaldan@simnet.is, www.simnet.is/aldanhf).

Það er oft spurt hvort hægt er að ferðast sem farþegi á flutningaskipi. Svarið er já, hjá Eimskipi, en það er ekki ódýrt og ekki er hægt að fara á marga staði. Það er aðeins hægt frá miðjum apríl og til miðs október, og þá aðeins frá Reykjavík til Rotterdam í Hollandi, Hamborgar í Þýskalandi, Gautaborgar í Svíþjóð, Árósa í Danmörku og Færeyja. Eimskip tekur að hámarki þrjá farþega í senn. Það er dýrt (árið 2008 kostaði ferð frá Reykjavík til Hamborgar €641 aðra leið miðað við að tveir ferðuðust saman). Fleiri upplýsingar eru að finna á www.eimskip.is/desktopdefault.aspx/tabid-59 eða með því að hringja í Eimskip í síma 525 7800. Bókanir fara fram í gegnum vefsíðu Iceland Total, www.icelandtotal.com.

Lestir og rútur í útlöndum

Það er mikill kostur við lestir að allar áætlanir þeirra er hægt að skoða á vefsíðum. Sum lestarkerfi eru með einfalt verð, ólíkt því sem flugfélög gera, sem þýðir að viðskiptavinurinn þarf ekki að hugsa strategískt um hvernig að bóka. En aðrar lestir (t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Svíþjóð og Þýskalandi) hafa tekið upp svipuð bókunarkerfi og flugfélögin eru með: farþegar spara með því að bóka snemma og tapa í stórum stíl með því að þurfa að borga breytingargjald ef þeir ná ekki lestinni sem þeir ætluðu upphaflega að ferðast með. Margir farþegar spara með því að kaupa lestarkort sem leyfir korthafanum að ferðast ókeypis (eða á afslætti) í tiltekinn tíma. En það má ekki gleyma rútunum. Þær eru oftast ódýrari en lestir og verðskrár þeirra einfaldari. Það er hinsvegar erfiðara að finna upplýsingar um rútuáætlanir og rútukort eru ekki eins mörg.

Lestir

Uppíhaldsvefsíðan mín fyrir lestarferðir í Evrópu (alla leið frá Írlandi til Rússlands og Tyrklands) er sú belgíska: plannerint.b-rail.be. Hún er snögg, hraðvirk, tvítyngd og einföld í notkun fyrir þá sem vilja bara skoða áætlanir. Ég nota einnig þýsku síðuna (besta leiðin á ensku útgáfuna er www.bahn.de/international), að hluta til vegna þess að ég er með notendanafn á síðunni og get pantað miða af henni í pósti.

Stundum eru bestu upplýsingarnar að finna á vefsíðu hvers lands fyrir sig. Það er hægt að finna hana á www.railfaneurope.net/links.html, sem er fyrst með linkur að lestaráætlunum í Vestur-Evrópu, svo Austur-Evrópu og þá öðrum löndum (smelltu á fánann í röðinni sem er merkt "timetable"; færðu þig niður röðina til að finna landið sem þú hefur áhuga á). Önnur góð vefsíða með upplýsingar um lestarferðir er seat61.com.

Það hefur orðið algengara að bóka og borga lestarmiða á netinu áður en lagt er af stað. Vefsíður landa eru þó mislangt komnar með þetta verkefni — sumar leyfa það alls ekki, sumar leyfa bókanir og geta þá viðskiptavinir prentað út miðana sjálfir. Sumar leyfa bókanir og senda svo miðann í pósti, aðrar leyfa bókanir en sækja þarf miðann á lestarstöðina. Mér finnst mjög gott að geta gengið frá miðakaupum áður en ég kem á áfangastaðinn.

Interrail og önnur lestarkort

Að kaupa lestarkort í stað þess að kaupa miða frá einum stað á annan getur sparað pening (það fer eftir skipulagi ferðarinnar) og þú sleppur venjulega við ýmis vandamál sem geta valdið þér hausverk. En hafðu það í huga að lestarkort dekka einungis það að komast frá A til B. Þau tryggja ekki sæti. Það þarf ennþá að panta sæti og borga fyrir það/þau. Auk þess þarf að borga viðbótargjald fyrir hraðlestirnar, sem dregur úr þeim sparnaði sem lestarkort bjóða upp á.

Í Evrópu er InterRail kortið best þekkta lestarkortið sem Íslendingar mega kaupa. Það eru tvö afbrigði af kortinu: allsherjarkort ("Global") og eins lands kort ("One Country"). Eins lands kortin gilda í einu landi; verðið er misjafnt frá landi til lands. Allsherjarkortið gildir um alla Evrópu — nánar tíltekið í þeim Evrópulöndum sem taka þátt í Interrail. Balkanskaginn og Tyrkland taka þátt en ekki Eystrasaltsríkin, Rússland, Hvita-Rússland, Úkraína, Moldavía og Albanía. Kortin sem eru í boði gilda annað hvort í 22 daga í röð, í heilan mánuð, í 5 daga (ekki endilega í röð) yfir 10 daga tímabil, eða í 10 daga yfir 22 daga tímabil. Það er afsláttur fyrir þá sem hafa ekki náð 26 ára aldur á fyrsta gildisdegi kortsins. Það þarf að panta InterRail kort á netinu frá interrailnet.com (sendingarkostnaður til Íslands er innifalinn í verðinu).

Lestarkerfin í sumum Evrópulöndum selja eigin "eins lands" lestarkort sem eru stundum hagstæðari en eins lands kortin frá InterRail. Til dæmis er BritRail kortið (bókað í gegnum www.britrail.com) ódýrara og selt í fleiri afbrigðum en eins lands InterRail kort fyrir Bretland. Í Sviss, www.swisstravelsystem.com býður upp á kort sem gilda einnig í rútum og strætóum. Þau eru dýrari en InterRail kortin en gilda víðar.

Sum kort (seld undir nafni "Eurail") mega einungis þeir kaupa sem búa utan Evrópu. Skoðaðu þessi kort ef þú býrð t.d. í Norður-Ameríku eða Asíu (á www.eurail.com).

Það er mjög góð handbók um evrópsk lestarkort á vefsíðu Rick Steves í Bandaríkjunum, þó að hún er ætluð Bandaríkjamönnum sem kaupa Eurail kort. Í henni er fullt af upplýsingum um hvernig best að nota lestarkort og hvenær það borgar sig að kaupa einfalda miða í staðinn. Handbókin er til bæði í HTML og PDF.

Farþegar í Bandaríkjunum geta keypt lestarkort frá Amtrak. Kortin sem í boði eru gilda fyrir átta, tólf, eða sextán "áfanga" í lest. Það verður að nota þau yfir 15, 30, eða 45 daga tímabil (hvor um sig í áðurnefndri röð). Það þarf einn áfanga í hvert skipti sem það er farið um borð í lest (eða tengirútu) sem hvetur korthafa til að fara langar leiðir. Fleiri upplýsingar eru á vefsíðu Amtrak, www.amtrak.com (smelltu á Reservations, þá USA Rail Passes). Þar sem fargjöldin hjá Amtrak eru lág (og enn lægri eftir 10% afsláttinn fyrir félagsmenn bílaklúbba eins og FÍB), þá þarf að ferðast býsna mikið áður en kortin borgi sig. Reglur kortanna eru flóknari en í Evrópu, og það þarf að panta hverja ferð fyrirfram. Því miður, ólíkt Evrópskum lestarkortum og líkt vildarklúbbsbókunum, er sætaframboðið sem korthafar geta pantað takmarkað. Kortin virka því best fyrir þá sem geta skipulagt ferðina sína með góðum fyrirvara. Kortin eru keypt á netinu (það skiptir engu máli hvort þú ert í Bandaríkjunum eða erlendis); en þau þarf að sækja á lestarstöð í Bandaríkjunum.

Japanska lestarkortið (Japan Rail Pass) er mjög góður kostur fyrir ferðamenn. Fleiri upplýsingar eru á www.japanrailpass.net. Það þarf að kaupa kortið áður en komið er til Japans, frá umboðsmanni Japan Rail, svo sem Jalpak eða JTB.

Rútur

Rútur eru venjulega ódýrari en lestir og eru eini samgöngumátinn í sumum löndum. Hinsvegar eru rútuleiðir í eðli sinu ekki varanlegar og það getur verið erfitt að finna áætlanir og verðskrár þeirra. Það er skynsamlegt, bara vegna eðlis lestarteininga, að vera með einn miðlægan áætlanagagnagrunn. En ný rútufyrirtæki eru stofnuð á hverjum degi, og þjóna þörfum sem breytast frá ári til árs og líka á milli árstíða.

Hvernig er hægt að finna upplýsingar um rútufyrirtæki erlendis? Besta leiðin sem ég þekki er www.busstation.net; veldu svæði og svo land frá listanum, og vefsíður þar sem áætlanirnar eru eru merktar með dökkgulum liti. Sum lönd hafa sameinað áætlanir sem safna saman rútu-, lestar-, ferju-, og strætóáætlunum og þessar vefsíður geta verið mjög hentugar (tvö dæmi eru Svíþjóð og Tékkland).

Hér eru nokkrar mikilvægar linkur að rútuáætlunum:

Nýlega hafa "lágfargjaldarútufyrirtæki" sprottið upp í mörgum löndum. Hjá flestum þarf að bóka fyrirfram á netinu. Brautryðjandinn í Bandaríkjunum var Fung Wah (New York-Boston, www.fungwahbus.com), sem býður upp á miða fyrir bara $15. Nýjustu fyrirtækin eru DC2NY (New York-Washington, www.dc2ny.com) og Megabus (Northeast, Midwest og California, www.megabus.com/us). Megabus er líka í Bretlandi: www.megabus.com/uk.

Bílaleiga

Eins og með flugmiða, bílaleigu hefur fært sig alfarið á netið. Það er best að nota stóru leitarvélarnar, eins og www.travelocity.com, www.expedia.com, og www.orbitz.com. Ég segi þetta þó að ég noti þessar leitarvélar helst ekki til að leita að hótelum og flugmiðum. En þú getur leitað og gert verðsamanburð á milli helstu alþjóðlegu bílaleigufyrirtækja svo sem Hertz, Avis, Budget, og Dollar.

Eftir að hafa fundið besta verðið fyrir ákveðið tímabil á leitarvélinni, taktu þá eina mínutu til að leita beint á vefsíðu fyrirtækisins (t.d. www.hertz.com) og settu inn sömu spurninguna. Af og til er verðið þar aðeins lægra eða skílmálar leigunnar sveigjanlegri. Auk þess er yfirleitt skynsamlegra að kaupa beint frá þeim sem veita þjónustuna en í gegnum millilið.

Punktar til að hafa í huga: Best er að biðja um minnsta bílinn sem þú passar inn í. Það á ávallt að leiga bíl með ótakmarkaða kílometra nema ef þú ert alveg viss um að hann verður lítið keyrður. Verð eru oftast lægri ef leigt er í viku. Félagsmenn í bílaklúbbum eins og FÍB fá oft 5-10% afslátt. Ef þú gleymir að gefa þetta upp við bókun þá taktu bílaklúbbskortið með þegar þú sækir bílinn.

Að fá bíl afhentan á flugvellinum er stundum dýrara en að fá hann í bænum á þeim áfangastað sem þú ert á. Ef þér er alveg sama, það ættirðu þá að fá bílinn í bænum. Oft hafa ferðamenn ekki þörf á bíl fyrstu einn eða tvo daga á nýjum stað. Hins vegar, í sumum borgum, sérstaklega í Norður-Ameríku, er kostnaður þess að komast frá flugvellinum inn í bænum orðinn svo mikill að það borgar sig að leiga bíl til að forðast því að þurfa að taka leigubíl frá flugvellinum. Ég get nefnt sem dæmi að þegar ég gisti í Washington í þrjá daga og flaug til og frá flugvellinum í Baltimore, þá reyndist vera ódýrara að leigja bíl, fá hann afhendan á flugvellinum, og skila honum eftir þrjá daga, en að borga leigubíl fram og tilbaka eða jafnvel að taka lest hálfa leið og svo leigubíl.

Mikilvægasti þáttur í að velja bílaleigubíl er oft ekki grunnverðið, heldur verð á aukaþjónustunni sem þú þarft. Ef til vill vantar þig barnastól, þú vilt að vinur eða maki þinn fái að keyra bílinn líka, eða þú vilt leiga bílinn "aðra leið" þar sem þú skilar honum á annan stað en þú fékkst hann afhendan. Allt þetta kostar venjulega pening. Annað mál er ef þú vilt keyra bílinn í annað land áður; stundum er það reyndar bannað. En öll mál af þessu tagi þarftu að gæta að, passaðu upp á að lesa smáa letrið á netinu, prentaðu það og hafðu það með þegar þú mætir til að fá bílinn. Stundum er orðalagið í samningum óskýrt; ekki hika við að biðja um skýringar frá fyrirtækinu. Sum fyrirtæki fella niður aukagjöld, t.d. vegna aukaökumanns, fyrir félaga í viðskiptaklúbb fyrirtækisins; skráðu þig ef þú sparar með því.

Venjan í bílaleigugeiranum er ennþá sú að það þarf ekki að borga neitt fyrirfram fyrir leigu á bíl. Þú hefur þá frelsi til að afpanta allt fram að síðustu stundi eða bara mæta ekki. Sum fyrirtæki eru nú farin að gefa afslátt til viðskiptavina sem eru til í að skuldbinda sig og borga fyrirfram. En þessi afsláttur er lítill, og ég myndi forðast því að borga fyrirfram, því að áætlanir breytast, flugi getur seinkað, og það er best að vera bara óbundinn fyrst það er hægt.

Skammtímakaupleiga á bílum getur verið hagstæðari en venjuleg bílaleiga fyrir þá sem þurfa bíl lengur en í tvær vikur. Tæknilega séð kaupir þú bílinn en fyrirtækið skuldbindir sig í að kaupa hann tilbaka frá þér eftir leigutímann. Franskir bílaframleiðendur hafa boðið upp á kaupleigu í mörg ár og eiga viðskipti við Íslendinga. Fyrirkomulagið gengur best upp ef þú sækir bílinn og skilar honum aftur í Frakklandi. Fleiri upplýsingar eru á vefsíðum Peugeot Open Europe (www.peugeot-openeurope.com) og Renault EuroDrive (www.renault-eurodrive.com).

Kaskótrygging bílaleigubíla

Bílaleigur bjóða viðskiptavinum sínum upp á alls konar aukatryggingar og ítreka þessi tilboð, oft með þrýstingi, þegar bílar eru afhentir. En bílar eru (a.m.k. í þeim löndum sem ég þekki til) ávallt leigðir með lágmarksábyrgðartryggingu, sem bætir tjón á öðru fólk og eignum annarra. Það er því einfaldlega ekki hægt að leiga bíl án lágmarkstryggingar. Það ætti að íhuga aðeins eina tryggingartegund til viðbótar, sem er kaskótrygging bílaleigubíla. Þessi trygging bætir tjón á bílaleigubílnum sjálfum og stundum tekjutap bílaleigunnar af því að geta ekki leigt bílinn á meðan hann er í viðgerð. Það er frekar stór áhætta að taka ekki þessa tryggingu: verðmæti bílsins er oft töluvert auk þess að það getur verið leiðinlegt að vera haldin sífelldum ótta við að skemma bílinn. Ég mæli með því að taka kaskótryggingu. Hún heitir oftast "collision damage waiver" á ensku.

Það er alltaf hægt að kaupa kaskótryggingu af bílaleigunni. En fyrir þá sem hafa kreditkort sem innifela í sér kaskótryggingu bílaleigubíla er oft hagstæðara að greiða fyrir leiguna með því. Á Íslandi er það aðeins dýrustu kreditkortin sem gera það, svo sem Visa Platinum kortið, Visa Gull- og Silfurviðskiptakort og Eðalkort Sparisjóðsins. Árgjald þessara korta er hins vegar hátt: til dæmis kostar Visa Platinum kort Netbankans 19.500 kr. á ári. Dagtaxtinn fyrir kaskótryggingu frá bílaleigunni getur verið á bilinu 1.500-2.000 kr. Þeir sem leigja bíl í meira en viku á ári spara með því að borga árgjaldið með áðurnefndum kortum sem fela í sér kaskótryggingu, sérstaklega vegna þess að þessi kort eru með aukahlunnindi (eins og aðgang að betri stofunni í Leifsstöð). Mörg amerísk kreditkort (gull og platinum) hafa einnig innifalda kaskótryggingu en hafa ekkert árgjald, þannig að það má einfaldlega nota amerískt kreditkort ef þú átt slíkt. Ef þú ætlar að nota kreditkortið til að tryggja bílinn, lestu endilega skilmálana kortsins; afþakkaðu, skriflega, trygginguna sem bílaleiga býður upp á; og fylgdu öllum leiðbeininum nákvæmlega ef tjón verður á bílnum. Flestar tryggingar kreditkortanna gilda bara á bílum sem leigðir eru fyrir utan heimaland korthafans og ef leigutími bílsins er minna en 30 daga. Flestar tryggja ekki lúxúsbíla og bíla sem eru leigðir í örfáum, ákveðnum löndum.

Gisting

Fyrsta regla þess að bóka gistingu er að nota sem flest leitartæki til að finna gistingu, en að bóka alltaf beint hjá þeim sem á eða rekur gistinguna. Það þarf einhvers konar leitartæki til að finna hótel eða aðra gistingu. Þetta gæti verið ferðahandbók, hótelvefsíða, leitarvél á borð við Expediu, vefsíða borgaryfirvalda eða bara meðmæli frá vinum. En best er að láta leitartækið vera bara leitartæki. Ekki láta leitartækið bóka gistingu fyrir þig. Það mun taka prósentu af heildarupphæðinni sem gistingin kostar. Leitarvélin á ekki hótelið. Hótelið á hótelið. Hafðu samband við hótelið og bókaðu beint hjá þeim. (Þessi regla gildir einnig þegar um aðra þjónustu er að ræða, t.d. í samgöngum eins og flugi, lestum og bílaleigum.)

Ef verðið sem hótelið býður upp á er hærra en það sem þú fannst í leitinni, nefndu verðið sem þú sást við hótelið og biddu um það, nema það sé úr gamalli ferðahandbók. Ef hótelið neitar — sem er ólíklegt — þá máttu bóka í gegnum leitarvélina. Það gerist af og til að hótel selja herbergi sín á ódýru verði í gegnum þriðja aðila. En það borgar sig oftast að sleppa við milligönguliðnum og bóka beint.

Ég mæli með því að fólk forðist að bóka gistingu í gegnum vefsíður sem gefa ekki upp raunverulegt símanúmer eða raunverulega vefsíðu hótelsins. Slík hegðun er vísbending um að vefsíðueigendur vilja helst ekki að þú fáir þessar upplýsingar — þannig að það sé líklegra að þú bókir í gegnum vefsíðuna og að eigendurnir fá prósentu af bókuninni. Það er stundum hægt að finna raunverulegar vefsíður með því að leita á Google, en stundum fær Google flóðbylgjur af mísvísandi linkum frá bókunarvélum. Ef ekkert virkar, þá er alltaf hægt að leita að símanúmer hótelsins og að hringa í það. (Góð vefsíða fyrir að finna símaskrár í útlöndum er numberway.com, en það er líka hægt að gúgla "XXX white pages" — með nafni landsins sett inn fyrir XXX.)

Hver eru bestu leitartækin?

-- Ferðahandbækur geta enn hjálpað mjög við að finna gistingu. Góð ferðahandbók er með auðmeltanlegt yfirlit yfir gistingu á ákveðnum stað sem stuðlar að því að velja nákvæmlega það sem hentar þér best. Ferðahandbækur gefa upp rétt símanúmer og réttar vefsíður. Gallinn við ferðahandbækur er að þær úreltast fljótt, og þær innihalda takmarkaðar upplýsingar, þannig að gistimöguleikar í vinsælum ferðahandbókum verða fljótlega yfirbókaðir.

-- Tripadvisor.com og að einhverju leyti booking.com eru mjög góðar vefsíður þar sem það má skoða hvað aðrir ferðamenn hafa sagt um ákveðna gisti- og veitingastaði. Það má líka leita að öllum gisti- eða veitingastöðum á einum stað til þess að bera saman ýmsa möguleika. Ég skoða TripAdvisor.com fyrst vegna þess að það eru fleiri staðir á vefsíðunni og breiðara úrval gististaða (t.d. gistihús og farfuglaheimili). Stærsta vandamál slíkra vefsíðna er að þær eru vísvitandi ekki með krækjur að vefsíðum gisti- og veitingastaðanna sjálfra, þar sem þær prósentur frá þeim sem bóka beint í gegnum síðuna. Það hefur verið mikið talað um hvort þessar vefsíður séu traustins verðar og eflaust hafa sumar umsagnir á þeim verið skrifaðar af eigendum viðkomandi gisti- eða veitingastaða, en flestar umsagnir eru samt heiðarlegar. Það á samt að taka ekki of mikið mark á umsögnunum og ekkert mark á jákvæðustu og neikvæðustu umsögnunum.

-- Helstu leitarvélar, svo sem travelocity.com, expedia.com, og priceline.com eru góð tól til að finna gistimöguleika á ákveðnum stað, sérstaklega hótel og dýrari gististaði. Það er hægt að raða niðurstöður eftir verði eða nákvæmri staðsetningu. Því miður neita slíkar vefsíður að gefa upp símanúmer eða vefslóðir hótela sinna, vegna þess að þær vilja að ferðamenn bóki á vefsíðunni.

-- Google Maps (maps.google.com) er orðin að ágætis gistileitarvél, þó að ég fari venjulega fyrst á tripadvisor.com eða booking.com. Hjá Google Maps er hægt að slá inn t.d. aðeins "pension Berlin" eða "hotel stansted" og þá kemur listi gististaða og korta sem sýnir þá. Upplýsingar frá Google Maps eru ekki eins tæmandi og á öðrum vefsíðum, en þær eru auðveldar að lesa og vefsíðan gefur upp símanúmer og vefslóðir. Google Maps er oft góð aðferð til að finna vefsíðu eða símanúmer gististaða sem ég hef fundið á Expedia, Travelocity, eða TripAdvisor. Auk þess sýna gervitunglakortin á Google Maps eitthvað af hverfinu kringum gististaða og þannig er hægt að komast að raun um eitthvað sem sumir gististaðir vilja ekki sýna á sínum eigin vefsíðum.

-- Upplýsingamiðstöðvar sumra borga og landa taka saman lista yfir hótel og gístihús. Það er hægt að finna margar slíkar stofanir í gegnum vefsíðuna www.antor.co.uk (Association of National Tourist Office Representatives). Bretland og Eistland eru tvö lönd sem halda úti ágætis lista. En taktu eftir: upplýsingamiðstöðvar í sumum borgum, sem voru einu sinni hreinskilnar og neytendavænar og reyndu að markaðssetja áfangastaði sína heiðarlega, hafa breyst í umboðsmenn sem fá tekjur sínar af prósentum. Hvatinn hjá þessum upplýsingastofnunum er að forðast því að gefa upp símanúmer eða vefsíður gististaða eða að aðstoða ferðamönnum við verðsamanburð.

-- Þeir sem ætla að gista á farfuglaheimilum finna lista yfir öll "hefðbundin" farfuglaheimili á www.hihostels.com, á meðan hostels.com er líka með upplýsingar um "sjálfstæð" farfuglaheimili.

Þrir punktar að lokum. Hafðu í huga að það er alltaf hægt að prútta eða semja um verð á gistingu. Til þess að gera þetta, þú verður að hafa samband við viðkomandi gististað í síma eða tölvupósti. Bíddu þar til fyrsta tilboðið kemur frá honum og spurðu svo hvort það sé eitthvað ódýrara til. Annað — athugaðu alltaf hvort allir skattar séu innifaldir í verðtilboðum. Verð eru oft gefin upp án skatta, sérstaklega í Bandaríkjunum. Í þriðja lagi — mörg keðjuhótel í Bandaríkjunum og víðar hafa byrjað að bjóða upp á lægri verð fyrir bókanir sem ekki er hægt að breyta eða afbóka. Þetta er freistandi, en því fylgir áhætta, vegna þess að ef eitthvað ófyrirsjáanlegt kemur upp á þá fellur kostnaðurinn á þig.

Óhefðbundnar gistileiðir

Að leiga gistingu til lengri tíma (í viku eða lengur) er alltaf ódýrara. Jafnvel hótel og gistihús sem ekki auglýsa langtímaverðskrá eru venjulega til í að lækka verðin sín ef þú biður um það. Það eru ýmsar vefsíður sem sérhæfa sig í langtímaleigu. Á homeaway.com eða með "vacation rental" smáauglýsingarnar á craigslist.org ert þú að tala beint við eigendur. Það er betra að fara mjög varlega við samningagerðina (reyndu t.d. að forðast að senda pening fyrirfram, en ef ekki er hjá því komist, notaðu alltaf rekjanlega aðferð — ekki Western Union; hafðu persónulegt samband við eigendann, að minnsta kosti í síma, áður en þú gengur frá samningnum). Það er líka hægt að nota vefsíður eins og interhome.com eða e-domizil.de. Þessar vefsíður starfa í umboði eigenda, þannig að þú borgar þeim, ekki eigendanum, sem eykur öryggi samningsins. En eignirnar á skrá eru ekki eins fjölbreyttar og takmarkast oft við ferðamannaþyrpingar.

Fleiri en 100 Íslendingar eru skráðir á vefsíðunni couchsurfing.com, sem er vefsíða þar sem fólk býður upp á ókeypis gistingu í þeirri von á að geta nýtt sér gistingu á eigin ferðum í útlöndum. Ég hef sjálfur aldrei verið skráður í Couchsurfing en hef hitt margt fólk sem er mjög ánægt með það og segja að vefsíðan sé skipulögð og örugg sem og að litlar líkur séu á að lenda í vitleysu eða glæpamennsku hjá ókunnugu fólki.

Íbúðaskipti eða húsaskipti þýðir að þú og annar aðili gera samkomulag um að skipta bókstaflega um heimili í (venjulega) eina eða tvær vikur. Þetta er frábær kostur, þó að það þurfi aðeins kjark til að framkvæma það. Vefsíðan sem ég þekki best og sú sem vinir mínir láta vel af er homeexchange.com (með tveimur e-um). Það má skoða íbúðirnar sem eru í boði ókeypis, en vefsíðan tekur hóflegt gjald (nú US $100) ef þú vilt virkilega skipta við einhvern.

Peningar

Hvernig á að breyta íslenskum krónum í útlenskan pening er eitt mikilvægasta atriðið sem þarf að hafa í huga þegar ferð er í undirbúningi. Það skiptir máli að gera það á sem hagkvæmastan hátt, ef þú vilt á annað borð spara. Jafnvel þótt sér er erfitt að velja nákvæmlega réttu leiðina til að hámarka sparnaðinn þinn, þá er auðvelt að forðast algeng mistök sem gerða það að verkum að þú tapir í gjaldeyrisskiptunum í stórum stíl. Það eru aðallega rjár skynsamlegar leiðir til að breyta íslenskar krónur í útlenskan pening: það má fara í banka á Íslandi og kaupa erlenda seðla með íslenskum krónum, það má taka út peninga í hraðbanka í útlöndum með íslenskum debetkorti eða það má borga fyrir vörur eða þjónustu í útlöndum með íslensku greiðslukorti.

Seðlabanki Íslands hefur nýlega takmarkað aðgang Íslendinga að gjaldeyri. Þeir sem ferðast til útlanda mega skipta að hámarki 500.000 kr. á mánuði í gjaldeyri og það eru ýmsar aðrar hindranir. Ég mun ekki lýsa þessum nýju reglum hér og ég vonast til þess að þær verði tímabundnar.

Hér koma nokkrir meginpunktar.

Aldrei taka út peninga úr hraðbanka í útlöndum með kreditkorti þínu, vegna þess að þóknanir á kreditkortaúttektum er mjög háar. Notaðu debetkortið. Ef þig langar að kaupa erlenda seðla hér á landi áður en þú ferð út, kauptu þá í banka í bænum, en ekki á Leifsstöð, þar sem þeir kosta 1% í viðbót.

Kostnaður þess að taka peninga út úr hraðbanka með debetkorti í útlöndum er svipaður og kostnaður þess að kaupa seðla í bankanum hér á landi, þannig að það er enginn ávinningur með því að kaupa seðla á Íslandi. Hins vegar eru margir með takmarkaðar úttektarheimildir á kredit- eða debetkortum sem þýða að ef um stærri upphæðir er að ræða þá er best að taka þær út áður en ferðin hefst.

Góð ráð varðandi það að borga í búðum með kredit- og debetkortum: Það er yfirleitt best í útlöndum að borga eins oft og hægt er með plasti. Þetta tryggir þér sæmilegt gengi og veitir meira öryggi ef eitthvað klikkar í kaupunum (t.d. varan er gölluð). Hvort þú notar debet- eða kreditkortið er í rauninni ekki sérstaklega mikilvægt. En mín reynsla er sú að gengið á debetkortafærslum erlendis er aðeins betra en gengið á kreditkortafærslum.

Athugaðu hvert færslugjald er á hraðbankaúttekt: Í Bandaríkjunum, þegar seðlar eru teknir út úr hraðbanka, hraðbankaeigandinn bætir oft við $1.50 til $3.00 gjald fyrir umsýslu við færsluna. Tökum dæmi um að gjaldið sé $2: þá mun $30 úttekt kosta $32 og $300 úttekt $302. Það er alltaf best að taka út stærstu mögulegu upphæð þannig að gjaldið verði hlutfallslega minna. (Ein skýring á þessari hefð í Bandaríkjunum er að hraðbankar eru ekki alltaf í eigu banka en eru stundum settir á sinn stað í hagnaðarskyni af ýmsum fyrirtækjum.)

Fjögur mismunandi gengi

Ef þig langar virkilega að skilja gengiskerfið á Íslandi, þá þarftu að skilja að það eru fjögur mismunandi gengi sem notuð eru í ólíku samhengi:

 • "Almennt gengi": gengið sem er notað fyrir debetkortafærslur (og fyrir millilanda bankamillifærslur). Almenna gengið getur breyst nokkrum sinnum á dag og getur verið aðeins mismunandi frá banka til banka.
 • "Seðlagengi": gengið sem er notað fyrir sölu pappírsseðla. Seðlagengið getur líka breyst nokkrum sinnum á dag og verið aðeins mismunandi frá banka til banka.
 • "Kreditkortagengi": gengi sem eru sett af Mastercard og Visa (hver á sitt eigið gengi). Mér sýnist að kreditkortagengið sé breytilegt frá degi til dags en ekki innan eins tiltekins dags.
 • "Miðgengi Seðlabankans": gengi sem er sett af Seðlabanka Íslands. Þú gætir notað þetta gengi til að skipta á peningum við vin, vegna þess að gengið er hvorki seljandanum eða kaupandanum í hag. Þetta gengi er líka notað í ýmsum skattaútreikningum.

Raungengin sem neytendur fá eru þá reiknuð út á þennan hátt:

 • Kaup gjaldeyrisseðla í banka á Íslandi: seðlagengi + 0%
 • Kaup gjaldeyrisseðla í Leifsstöð: seðlagengi + 1%
 • Hraðbankaúttekt með debetkorti, í Leifsstöð: seðlagengi + 1%
 • Hraðbankaúttekt með debetkorti, í útlöndum: almenn gengi + 2%
 • Hraðbankaúttekt með kreditkorti, í útlöndum: kreditkortagengi + 2,5% (lágmark 300-440 kr, mismunandi á milli banka)
 • Greitt í búð í útlöndum með debetkorti: almenn gengi + 1%
 • Greitt í búð í útlöndum með kreditkorti: kreditkortagengi + 0%

Skoðaðu aðeins þennan lista. Tengslin á milli kreditkortagengisins og almenna gengisins ráða því hvort það sé skynsamlegra að versla með debetkorti eða kreditkorti í útlöndum. Tengslið á milli seðlagengisins og almenna gengisins ræðir hvort þa sé skynsamlegra að kaupa (til dæmis) evrur í banka á Íslandi eða að taka þær út með debetkorti úr hraðbanka á Frakklandi. Gjaldeyrir á almenna genginu er yfirleitt bara aðeins dýrara en á miðgengi Seðlabankans. Gjaldeyrir á seðlagenginu og kreditkortagenginu er venjulega aðeins dýrari en á hinum gengum. En þetta er ekki föst regla og stundum sveiflast gengin nokkuð.

Það má skoða öll þessi gengi á netinu: miðgengi Seðalbankans á gengissíðu Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/?PageID=7), kreditkortagengi á vefsíðum kortafyrirtækjanna (VISA: www.valitor.is, þá "Kortalausnir," þá "VISA gengi"; MasterCard: www.borgun.is/mastercardgengi, eða bara www.borgun.is ef þú vilt bara gengi dollarans eða evrunnar í dag), og seðlagengið og almenna gengið á vefsíðum banka (til dæmis, www.landsbanki.is/markadir/gengigjaldmidla).

Ef þig vantar gengi fyrir minni gjaldmiðil sem er ekki á þessum vefsíðum, farðu þá á www.oanda.com/convert/classic eða www.xe.com/ucc.

Þjórfé

Við eigum að vera stolt af því að gefa ekki þjórfé á Íslandi. En að gefa þjórfé í veitingastöðum er algengt í Bandaríkjunum, Kanada, og Vestur-Evrópu. Það er EKKI gert ráð fyrir þjórfé á Norðurlöndunum, í Austur-Evrópu að mestu leyti, í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Japan. Mín reynsla er sú að það er ekkert tengsl á milli gæða þjónustu í ákveðnu landi og hvort þjórfé er venjulega gefið þar.

Í Vestur-Evrópu, þjórfé á veitingastöðum fer sjaldan upp yfir 10% og mjög oft er greiðsluupphæðin einfaldlega rúnnuð af. Það stendur t.d. €18.50 á strimlinum, en þú borgar €20. Í Vestur-Evrópu máttu segja við þjóninn hvað þú ætlar að borga á sama tíma og þú réttir honum peninginn. Þú gætir til dæmis fengið strimil upp á €22, gefið þjóninum €30, sagt "24," og svo færði €6 tilbaka frá þjóninum. Ef það stendur á matseðli veitingastaðarins að þjónusta er innifalin, þá þarftu alls ekki að gefa þjórfé.

Þjórfé í Bandaríkjunum er stundum skilið eftir í peningum á borðinu, en það er sérstök venja fyrir að gefa þjórfé þegar það er greitt fyrir matinn með kreditkorti. Eftir að hafa fengið strimilinn og gefið þjóninum kreditkortið færð þú annan strimil vegna kreditkortafærslunnar. Þessi strimill sýnir upphæðina án þjórfjár ("subtotal") og er þá með sérstaka línu þar sem þú mátt setja inn þjórfjárupphæðina. Venjan var einu sinni að gefa 10-15%, en nú er 15-20% algengara. Bandaríkjamenn reikna út upphæðina stundum mjög nákvæmlega, en það þarf ekki endilega að gera það. Ef þú átt að borga $25.00 fyrir matinn og vilt gefa 15% í þjórfé, þetta væri þá $3.75. Settu $3.75 á þjórfjárlínuna. Leggðu þá $25.00 og $3.75 saman og settu niðurstöðuna ($28.75) á línuna merkta "Total."

Þjórfé er algengt við ýmsar aðrar aðstæður í Bandaríkjunum: t.d. tíðkast oft að gefa leigubílstjórum, ræstingarfólki á hótelum, þeim sem bera töskur á hótelum, og þeim sem vinna við heimsendingar á veitingastöðum þjórfé. Ferðahandbækur eru yfirleitt með fleiri upplýsingar um við hvaða tækifæri ber að gefa þjórfé. Ágætar en ekki tæmandi leiðbeiningar um hvar venjan er að gefa þjórfé og hvernig víða um heim eru á en.wikipedia.org/wiki/Tipping_by_region. Það er oft erfitt að vita hvort gert sé ráð fyrir þjórfé í ákveðnu samhengi. Ef þú móðgar einhvern óvart vegna þess að þú gafst viðkomandi ekki þjórfé, ekki láta það trufla þig. Þú getur ekki skammast þín fyrir að hafa ekki vitað eitthvað sem enginn hefur greint þér frá.

Þeir sem hafa áhuga á að lesa sér til um sögu þjórfésins og hefðinni á bak við það geta t.d. fundið upplýsingar í bókinni Tipping: An American Social History of Gratuities eftir Kerry Segrave (1998).

Að versla í útlöndum

Ein meginástæða þess að Íslendingar fara til útlanda, jafnvel á tímum gjaldeyrishafta, er að versla. Smæð íslenska markaðarins, háir tollamúrar sem virðast stundum hafa verið settir til þess eins að fylla seðlaveski íslenskra kaupmanna, og há umsýslugjöld fyrir að greiða virðisaukaskatt á vörum sem keyptar eru í gegnum netið og koma hingað í pósti gera það enn meira freistandi að notfæra sér tollfríðindi sem fylgir ferðalögum að fullu. Auk þess er úrvalið í íslenskum verslunum og samkeppni þeirra á milli oft takmörkuð, og verð í útlöndum er oft miklu lægra. Íslendingar fara enda oft til útlanda með tómar töskur en við heimkomu eru þær stútfullar.

Ferðamenn mega nú koma til landsins með tollfrjálsan varning að upphæð 65.000 kr. á mann (32.500 kr. fyrir born sem hafa ekki náð 12 ára). Verðmæti eins hlutar má ekki fara yfir 32.500 kr. Ferðamenn mega ekki koma með meira en 3 kg af mat og verðmæti þess má ekki fara yfir 18.500 kr. Ef þú ferð yfir þessi mörk, þú borgar aðeins fyrir það sem er umfram mörkin. Að brjóta þessar reglur er næstum því eins og þjóðaríþrótt Íslendinga og tollverðir í Leifsstöð hafa (réttilega) meiri áhyggjur af þeim sem eru að reyna að smygla inn fíkniefnum en þeim sem hafa með sér aðeins of mikið af bókum eða osti. Það eru samt alltaf einhverjir stöðvaðir fyrir að fara yfir mörkin og gert að gjalda fyrir að hafa tekið of mikið með, þannig að þú hefur fengið viðvörun frá mér!

Allar reglur eru að finna á vefsíðu Tollstjórans, þar á meðal áfengisreglurnar, sem eru býsna flóknar.

Ég mæli með því að þú kaupir áfengi við heimkomuna í fríhöfninni á Íslandi, einfaldlega vegna þess að það getur verið svo mikið mál að flytja vökva í flugi á þessum tímum hertra öryggisráðstafana. Einu sinni kom ég alltaf með vínflöskurnar sem ég mátti koma með til Íslands í handfarangri en síðan bannið við vökva í handfarangri tók gildi get ég það ekki lengur. Þá er eini möguleikinn að setja flöskurnar í töskurnar sem eru innritaðar og fara í hlaðrými flugvélarinnar. Það er freistandi að gera það þegar ég kem frá Bandaríkjunum þar sem farangursheimildin er rýmri þaðan, en það er mikil áhætta að setja glerflöskur í ferðatösku sem þarf ef til vill að þola mikið hnjask. Það er hægt að að kaupa mjúku "Bot'lPak" vínflöskuumslögin sem eru seld af BottleWise fyrir $21.95 plús sendingarkostaðinn. En David Rowell, sem hefur skrifað um umslögin á Travel Insider bloggsíðu sinni, er ekki alveg jákvæður um þau, mér finnst verðið hátt, og það er sennilega einfaldast að sætta sig við áfengisúrvalið í fríhöfninni.

Ef þú vilt ekki eyða of miklum tíma í að versla í útlöndum en engu að síður kaupa ýmislegt þá mæli ég með því að versla fyrirfram á Internetinu og láta senda vörur til vina, ættingja, samstarfsmanna eða bara á gististaðinn þar sem þú sefur. Ég hef oft pantað bækur, tónlist, föt, ritföng, leikföng, og margt fleira á þennan hátt. Með þessum hætti hefurðu meiri tíma til vinnu, til að fara í skoðunarferðir eða til að hitta fólk. Kíktu fyrst á Amazon í Bandaríkjunum (www.amazon.com), Kanada (www.amazon.ca), Bretlandi (www.amazon.co.uk), Frakklandi (www.amazon.fr), eða Þýskalandi (www.amazon.de), en gleymdu ekki mörgum góðum vefsíðum til viðbótar: www.bookfinder.com fyrir notaðar bækur bæði í Evrópu og Norður-Ameríku; bandarískar netfataverslanir og útivistarverslanir eins og www.campmor.com, www.ems.com, www.llbean.com, og www.landsend.com; og svipaðar kanadískar verslanir eins og www.mec.ca og www.marks.com.

Fleiri upplýsingar um hvernig að versla í fríhöfninni eru í kaflanum um Keflavíkurflugvöllur.

Síminn, póstur, og Internetið

Það er ótrúlegt hvað hægt er að borga lítið eða mikið fyrir eitt símtal. Með því að taka upp tólið í hótelherbergi í Bandaríkjunum, eða að sitja á rúminu og hringja með farsímanum, gætir þú þurft að borga 100 kr. á mínútu til að hringja til Íslands. En sama hótel býður hugsanlega upp á ókeypis netaðgang og með VOIP-forriti, eins og Skype, á fartölvunni þá geturðu hringt til Íslands fyrir ekki neitt. Mín reynsla er sú að allt sem þarf er bara pínulítil fyrirhöfn, fyrirframskipulagning eða tölvustilling sem sparar heilmikinn pening. Margir Íslendingar fá símakostnað sinn greiddan af fyrirtæki sínu, en það er engin afsökun fyrir að sætta sig við ofurverð hjá Símanum og Vodafone. Segðu yfirmanni þínum að skoða ódýrari fjárskiptamöguleika.

Ódýrasta leiðin til að hringja til útlanda þessa dagana er að hringja í gegnum Netið — það gerir ráð fyrir að þú ert með netaðgang, sem er orðið staðall í hótelum, á vinnustöðum, og kaffihúsum um allan heim. Ef þú ætlar að taka fartölvu með á ferð, fáðu Skype (www.skype.com) af netinu og taktu heyrnartól (með hljóðnema) eða USB síma með í ferðina. Ef þú vilt tala bara við fjölskyldu þína eða aðeins fáeina hér heima, geta þau hlaðið Skype niður líka. Ef þig langar að geta hringt í fleira fólk, keyptu inneign hjá Skype. Með henni getur þú hringt í alla síma um allan heim á ódýru verði (til Íslands: €0.025 á mínutu í fastlínusíma og €0.237 í farsíma).

Farsímar eru besta og versta leiðin til að vera í sambandi — það er alltaf hægt að hringja út og að ná í þig, en það kostar sitt. Þing Evrópusambandsins samþykkti lög um svokallaða Evrópugjaldskrá vorið 2007, sem setti þak á verð fyrir reikisamtöl (þegar hringt er í öðru landi en heimalandi áskrifandans, e. roaming). Evrópugjaldskráin var loksins innleidd með reglugerð á Íslandi í nóvember 2008. Verðið fyrir að taka á móti símtali í Evrópulöndum hefur lækkað í um það bil €0.27 á mínutu, samkvæmt Evrópugjaldskránni. En annað verð fyrir símtal í Evrópu (t.d. á milli annarra Evrópulanda, eins og frá Danmörku til Svíþjóðar) eru enn ekki í samræmi við Evrópugjaldskrána. Verðið fyrir að hringja eða taka á móti símtölum í útlöndum fyrir utan Evrópu geta verið ótrúlega há — í sumum löndum, eins og Rússlandi, fáranlega há. Skoðaðu vefsíðu símafyrirtækisins áður en þú ferð. Taktu einnig eftir að það er orðið svolitið dýrt að senda SMS-skilaboð og taka á móti þeim í útlöndum, sem var einu sinni frekar ódýrt.

Varðandi farsímann er annað sem verður endilega að gera í útlöndum: að slökkva á talhólfinu. Ég er reyndar einnig með talhólfið slökkt á Íslandi til þess að gleyma því ekki þegar ég fer í ferðalag. Ástæðan er sú að ef síminn hringir í útlöndum og þú svarar ekki eða ýtir á rauða takkann til að hafna símtalinu, þá fer símtalið í talhólfið. En fyrir áframsendinguna í talhólfið borgar þú sama kostnaðinn og ef þú hefðir hringt í talhólfsnúmerið þitt frá því landi þar sem þú ert staddur í. Þetta þýðir að það að hafna eða svara ekki símtali í útlöndum getur kostað þig hundruð króna og jafnvel í Evrópulöndum kostar það einnig mikla peninga. Þetta fyrirkomulag er mannanna smíð en ekki sjálfgefið, og símafyrirtækin gætu örugglega breytt því ef þau vildu það, en þau græða örugglega mikið af svona mistökum.

Að hringja í gegnum góða gamla fastlínusímakerfið er ennþá fín aðferð í mörgum tilfellum. Vandamálið er að vera viss um að fá gott verð. Ein leið er að kaupa fyrirframgreitt símakort sem tryggir, skriflega, gott verð fyrir að hringja heim til Íslands eða hvert sem þú ætlar að hringja.

Þeir sem ætla að vera mikið í einu landi eða í langan tíma, og þurfa að hringja oft innanlands, ættu að kaupa fyrirframgreitt SIM-kort þess lands og setja það í farsímann (eða í aukafarsíma). Það er góð vefsíða með mörgum upplýsingum um fyrirframgreidd SIM-kort á prepaidgsm.net.

Í sumum löndum munt þú þurfa nýjan síma. Flest farsímakerfi í heiminum nota GSM 900 og 1800 bylgjulengdir. En sum kerfi (í Bandaríkjunum, Kanada, og flestum en ekki öllum löndum í Suður- og Mið-Ameríku) nota 850 og 1900 bylgjulengdir. Japan og Kórea nota enn annað kerfi. Ítarlegar upplýsingar eru á vefsíðunni www.gsmworld.com/technology/roaming/gsminfo/index.htm og það er mjög góð grein um þetta á vefsíðu Travel Insider. Þeir sem ætla að ferðast til þessara landa geta keypt ódýran farsíma sem virkar á 850/1900 bylgjulengdum, eða ódýran síma sem virkar á öllum fjórum bylgjulengdum í öllum löndum utan Japans og Koreu (ég keypti ólæstan Motorola V195 síma í Bandaríkjunum fyrir $60, sendingarkostnaður innifalinn). Áður en keyptur er þriggja banda farsími, er gott að vita hverja bylgjulengd af fjórum hann styður ekki.

Heilsa og öryggi

Reglur um endurgreiðslu á sjúkrakostnaði í útlöndum

Íslendingar eru mjög heppnir í samanburði við íbúa annarra landa: allir eru sjúkratryggðir og læknismeðferð þeirra sem veikjast skyndilega eða slasast í útlöndum er líka endurgreitt. Ferlið er mismunandi eftir hvort sjúklingurinn var á Evrópska efnahagssvæðinu eða fyrir utan Evrópu, sem og hvort sjúklingurinn er íslenskur ríkisborgari eða útlendingur með lögheimili á Íslandi.

Einfaldasta dæmið er íslenskir ríkisborgarar sem þurfa læknismeðferð í öðrum landi innan Evrópska efnahagssvæðisins (Sviss meðtalin). Þeir eiga rétt á sams konar meðferð frá opinberu heilbriðgiskerfi þess lands og íbúar landsins fá. Þessar reglur eiga líka við um ríkisborgara annarra EES-landa (t.d. Póllands eða Þýskalands) sem eru með lögheimili á Íslandi: með öðrum orðum, Pólverji sem býr á Íslandi en lendir í slysi í Frakklandi á rétt á meðferð í franska heilbrigðiskerfinu.

Til þess að geta sem auðveldlegast sýnt fram á þessi réttindi, það ætti endilega að sækja um evrópskt sjúkratryggingarkort (European Health Insurance Card) frá Tryggingastofnun með þessari krækju á vefsíðu þeirra: www.tr.is/sjalfsafgreidsla/evropskt-sjukratryggingakort. Mín reynsla er sú að læknir í Evrópu hafa tilhneigingu til að biðja þig um að borga þjónustu þeirra strax í peningum vegna þess að þeir nenna ekki að standa í þeirri skriffínsku sem þarf til að fá endurgreitt. Þegar sex mánaða gamall sonur minn byrjaði að hnera og hósta á Ítalíu og við fórum með hann til læknis, bað læknirinn um €60 fyrir tímann, við borguðum það með ánægju og við nenntum aldrei að reyna að fá það endurgreitt.

Annað, en líka frekar gott kerfi er í gildi fyrir þá sem ferðast utan Evrópu, til dæmis til Bandaríkjanna. Tryggingastofnun endurgreiðir sjúkrakostnað að vissum mörkum. Hún reiknar út kostnað sambærilegrar meðferðar á Íslandi og endurgreiðir að fullu að því marki. Fyrir allan umframkostnað fær sjúklingurinn 50% endurgreiðslu fyrir allt að 75.000 kr., 75% endurgreiðslu frá 75.000 til 10.000.000 kr., og 90% endurgreiðslu yfir 10.000.000 kr. Fyrir námsmenn erlendis og nánustu fjölskyldu þeirra hækkar hlutfallið í 75%, 90%, og 100%.

Í þessum tilfellum þarf að borga allan kostnað og sækja svo um endurgreiðslu á eyðublaði sem heitir "Umsókn um endurgreiðslu erlends sjúkrakostnaðar."

Það eru mjög fáar upplýsingar um þetta ferli að finna á vefsíðu Tryggingastofnunarinnar. Bestu upplýsingarnar eru í reglugerðinni (281/2003) eins og hún birtist í Stjórnartíðindi: "Reglur um endurgreiðslu kostnaðar vegna veikinda eða slysa erlendis."

Ríkisborgarar landa utan EES-svæðisins sem búa á Íslandi — t.d., Bandaríkjamenn sem eru með lögheimili á Íslandi en eru ekki íslenskir ríkisborgarar — geta ekki fengið evrópskt sjúkratryggingakort. Þeir geta samt fengið endurgreitt frá Tryggingastofnuninni fyrir sjúkrakostnaði erlendis (hvort sem er innan Evrópu eða utan).

Allir ferðamenn sem eru tryggðir af íslenska heilbrigðiskerfinu og ætla að ferðast utan Evrópska efnahagssvæðisins auk ríkisborgara landa utan Evrópska efnahagssvæðisins sem eru með lögheimili á Íslandi og ætla að ferðast innan Evrópu, ættu að fá sér vottorð frá Tryggingastofnuninni sem staðfestir að þeir eru tryggðir í íslenska kerfinu. (Spítalar í Bandaríkjununm, til dæmis, neita stundum að innrita sjúkling ef hann hefur ekki svona skírteini.) Umsóknin fyrir etta vottorð er á www.tr.is/media/eydublod/dvolerlfrinamofl.dot.

Nokkrir mikilvægir punktar fyrir þá sem þurfa læknismeðferð í útlöndum og búast við að sækja um endurgreiðslu:

 • Það fæst endurgreitt fyrir meðferð sem liggur á — eitthvað sem gat sannarlega ekki beðið þangað til komið var heim til Íslands.
 • Það fæst aðeins greitt fyrir meðferð í opinbera kerfinu (í þeim löndum þar sem það er bæði ríkisrekið og einkarekið heilbrigðiskerfi, t.d. í mörgum Evrópulöndum), nema ef sjúklingurinn var fluttur meðvitundarlaus á einkaspítala eða átti af öðrum ástæðum engan annan kost en að fara á einkarekinn spítala.
 • Það er skynsamlegt að biðja um skriflega staðfestingu sjúkdómsgreiningarinnar og að senda afrit staðfestingarinnar með umsókninni um endurgreiðslu til Tryggingastofnunnar.
 • Það er minnst í reglugerðinni á að það sé 15.000 kr. sjálfsábyrgð fyrir endurgreiðslu á sjúkrakostnaði í Evrópu. (Ég skil þetta ekki alveg ef kerfið innan Evrópu á að byggjast á gagnkvæmni þar sem engar greiðslur fara á milli landa, en ég hef enn ekki náð að komast að því hvað átt er við með þessu.)
 • Þeir sem verða að dvelja lengi á spítala eða lenda í talsverðum kostnaði þurfa samkvæmt reglunum að tilkynna það til Tryggingastofnunarinnar.

Öll helstu tryggingafélög á Íslandi, svo sem VÍS, Sjóvá, og TM, bjóða upp á aukatryggingu fyrir ferðamenn, og sumir eru þegar tryggðir á þennan hátt í gegnum tryggingarpakka sem flestir kaupa frá félagi sínu. Auk þess bjóða sum íslensk kreditkort upp á ferðatryggingu. Ég ætla að skoða ferðatryggingar á Íslandi betur á árinu 2009 og að fjalla um tryggingar í fréttabréfi Ferðastofunnar.

Ferðamenn á leiðinni til landa þar sem mælt er með bólusetningum ættu að íhuga það að panta tíma hjá Ferðavernd, í Mjódd í Reykjavík (s. 535-7700), sem bólusetur sjúklinga og veitir ráð um hverjar bólusetningar eru nauðsynlegar. Það er best að gera jafnvel nokkrum vikum áður en ferðin er farin, a.m.k. nokkrum dögum, svo að bólusetningar veiti þá vernd sem þær eiga að gera.

Í samanburði við íbúa margra landa eiga Íslendingar að vera stoltir af þeirri samvinnu sem felst í því að veita hvor öðrum almennt örugga og víðtæka heilbrigðisþjónustu sem tryggir þá bæði heima og erlendis fyrir slysum og sjúkdómum. Í öðrum löndum, eins og í Bretlandi t.d., endurgreiðir heilbrigðiskerfið engan kostnað vegna veikinda erlendis, og þar er því einungis á tryggingafélög að treysta, sem oft veita misvísandi og ruglingslegar upplýsingar í auglýsingum sínum. Auglýsingatextar þeirra freista þess að hræða almenning frekar en að upplýsa og það er mjög mikið af smáu letri í skilmálunum. Íslendingar mega telja sig heppna að vera með skilvirkt og neytendavænt kerfi.

Öryggi

Við vitum öll að Ísland er langt frá því að vera laust við glæpi. Hér eru stundaðir þjófnaðir, smyglað inn fíkniefnum og seld, unnin skemmdarverk ásamt ýmsum öðrum smáglæpum. En ástandið í mörgum löndum heimsins er miklu verra. Íslendingar á ferð erlendis mega því ekki vera of bláeygðir, þeir má jafnvel örla á dálitlu af ofsóknarkennd í hugsun þeirra. Skiljið t.d. ekki ferðatöskur eða fartölvu eftir í forsal hótels eða á sæti í lest eða rútu. Hugsaðu þig tvisvar um ef einhver kemur til þín óumbeðinn, og biður þig um að kaupa eitthvað, hjálpa sér með eitthvað eða deila peningi sem viðkomandi fann á götunni. Þetta er oft klassískt upphaf að einhvers konar svindli.

Vasaþjófar eru oft á ferð á fjölmennum svæðum og almennum samgöngum. Það er ein alveg pottþétt og örugg leið til að forðast vasaþjófnaði: geymdu peningana þína og vegabréfið í peningabelti. Beltið er á milli buxna og bróka þinna og þó að þú lítir út fyrir að vera aðeins feitari en þú ert, þá er næstum því ómögulegt fyrir þjófa að ná í það. Ég hef verið með peningabelti í útlöndum í mörg ár. Ég hef seðlaveski á mér líka, en í veskinu eru einungis kreditkort og þeir peningar sem ég þarf fyrir daginn.

Geymdu líka eitt eða tvö kredit- eða debetkort á öðrum stað ef þú ert með aðalkortið á þér — sennilega í töskum þínum einhvers staðar, ef til vill innan um óhreinan þvott. Ef aðalkortið þitt týnist eða er stolið þá hefur þú alltaf annað til vara.

Vegabréfsáritanir og vegabréf

Íslenskir ríkisborgarar þurfa engar vegabréfsáritanir til að ferðast í flestum Evrópulöndum, fyrir utan Rússland og Hvíta-Rússland. Meðal algengustu ákvörðunarstaða Íslendinga sem krefjast vegabréfsáritana frá Íslendingum eru Egyptaland, Georgía, Indland, Kína, Kúba, Laos, Nepal, Panama og Víetnam. Ástralía og Bandaríkin krefjast nokkurs konar minniháttar leyfis, sem þeir vilja ekki kalla vegabréfsáritun þó að það sé það þegar öllu er á botninn hvolft. Kanada krefst engrar áritunar. Útanríkisráðuneytið er með mjög góða skrá yfir vegabréfsáritanareglur á vefsíðunni www.utanrikisraduneyti.is/borgarathjonusta/Vegabrefsaritanir.

Strangt tiltekið þurfa Íslendingar ekki vegabréfsáritun fyrir stuttar heimsóknir til Bandaríkjanna út af persónulegum ástæðum en Íslendingar verða að fá "ferðaheimild" sem sótt er um á netinu. Það þarf að sækja um með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara en það er engin ástæða til að sækja ekki um miklu fyrr, vegna þess að heimildin gildir í tvö ár. Eyðublöðin á netinu eru á mörgum tungumálum, þar á meðal á íslensku. Til að sækja um á íslensku er farið inn á esta.cbp.dhs.gov/esta/esta.html?language=is en það er að sjálfsögðu líka hægt að sækja um á ensku. Upplýsingarnar sem kerfið biður um eru þær sömu sem ferðamenn þurftu áður að skila á grænum eyðublöðum við komuna til Bandaríkjanna.

Hvað áttu að gera ef þú týnir vegabréfinu þínu á ferð í útlöndum? Samkvæmt vegabréfavefsíðu dómsmálaráðuneytisins (www.vegabref.is) þarft þú að fara í íslenska sendiráðið eða ef ekkert sendiráð er í landinu þá til íslenska ræðismannsins. Þá færð þú neyðarvegabréf sem kostar 10.100 kr. og gildir ekki lengi en nægir til að koma þig heim til Íslands. Þegar heim er komið verðurðu þú að sækja um nýtt vegabréf en það kostar 5.100 kr. og gildir í 5 ár. Listi yfir íslensk sendiráð er á www.utanrikisraduneyti.is/sendi-og-raedisskrifstofur/islenskar.

KAUPMANNAHÖFN

Gönguferðir og ferðahandbækur sérstaklega fyrir Íslendinga: Guðlaugur Árason rekur Islands Center í Kaupmannahöfn (+45 2190 8207, www.islandscenter.dk, loppan@simnet.is). Hann býður upp á gönguferðir um borgina einu sinni á viku á suma sumarmánuðina og gefur út ferðahandbækur um Kaupmannahöfn á íslensku. Nýjustu bækurnar eru Kaupmannahöfn — ekki bara Strikið, sem inniheldur tíu gönguferðir um Kaupmannahöfn (2006), og Gamla góða Kaupmannahöfn (2005).

Jónshús er nokkurs konar miðstöð Íslendinga í Kaupmannahöfn. Það eru fréttir um fundir og aðrar samkomur á vefsíðunni (Øster Voldgade 12, www.jonshus.dk).

Íslensk gistihús í Kaupmannahöfn:

 • Gistiheimilið Halldóru í Hvidovre (vesturúthverfum), rekið af Halldóru Jónu og Ölmu Dögg, býður upp á ókeypis bílastæði, hefur stóran garð, og það er stutt í lestina (S-tog); herbergin deila þremur baðherbergjum á gangi. (Verð: Eins manns 450 DKK, tveggja manna 500 DKK, þriggja manna 600 DKK, fjögurra manna 700 DKK, 100 kr ódýrara nóv-mars ef gist er minnst 2 næstur, enginn morgunmatur; Hvidovrevej 374, s. +45 3677 8886, GSM +45 2460 9552, www.gistiheimilid.dk, email@gistiheimilid.dk.)
 • Lavilla Guesthouse í Sundbyvester (suðurúthverfum), stutt í bæði strætó og neðanjarðarlest sem fer inn í miðbæinn, er rekið af Vilborgu Ingvaldsdóttur og býður upp á 8 herbergi. Öll herbergi fyrir utan eitt deila baði. (Verð: Eins manns 300 DKK, tveggja manna 400 DKK; nóv-mars eins manns 250 DKK, tveggja manna 350 DKK; eitt dýrara svít tekur allt að 6 manns og er með sérbað; enginn morgunmatur; Røde Mellemvej 16, tel. +45 3297 5530, GSM +45 2848 8905, www.lavilla.dk, lavilla16@hotmail.com.)
 • Næturgisting Jónasar og Helenar, mjög nálægt flugvellinum en ekki í göngufæri frá flugstöðinni, leigir út tvær íbúðir. Hver íbúð hefur svefnherbergi með hjónarúmi og tveimur kojum, eldhúsi, sérbaði og sérinngang. Það tekur 22 mínutur að taka strætó inn í miðbæinn. (Verð: Eins manns/tveggja herbergja 500 DKK, þriggja manna 600 DKK, fjögurra herbergja 700 DKK, 100 DKK í viðbót ef gist er í eina nótt, ódýrara sept-mars eða fyrir lengri dvöl, ókeypis þráðlaust net, enginn morgunmatur; Højskole alle 11, 2770 Kastrup, s. +45 3110 6412, www.sitecenter.dk/jonaso, jonasis@mail.dk.)
 • Volosvej 15, rekið af Sigrúnu Óskarsdóttur, er í Amager, u.þ.b. 20 mínútur frá miðbænum með strætó, á leiðinni út í flugvöllinn. Það eru þrjú tveggja manna herbergi sem deila baði fyrir 400 DKK og eitt tveggja manna herbergi með sérbaði fyrir 500 DKK (ókeypis þráðlaust net, enginn morgunmatur; Volosvej 15, 2300 Köbenhavn S, s. +45 32 58 29 58, GSM +45 26 18 29 58, www.volosvej.dk, sannur@sport.dk.)
 • Herbergi.dk, einnig í Amager, hefur tveggja manna herbergi sem deila baði fyrir 400 DKK (nóv-feb 350 DKK, lágmarksdvöl 2 nætur, 3 herbergi, ókeypis þráðlaust net, enginn morgunmatur, Jansvej 39, s. +45 3542 2942, ivar@pc.dk). Strætó inn í miðbæinn tekur 20 mínutur.
 • Gisting.dk er með tvær vel staðsettar en litlar (50 fm) og svolitið dýrar íbúðir í boði á Magstræde mjög nálægt Strikinu. Á vefsíðunni stendur á allt að fimm manns geta sofið í íbúðunum en þær líta ekki út fyrir að vera mjög stórar á myndunum. (Verð: 1500 DKK, nóv-feb 1200 DKK, lágmarksdvöl 3 nætur, s. +45 3694 6700, gudni@post.tele.dk.)

Guðlaugur Arason er með upplýsingar um fleiri gistimöguleika á vefsíðu sinni.

Að gista nálægt flugvellinum: Eina hótelið sem er beint á Kastrup-flugvallarsvæðinu er Hilton Copenhagen Airport, en lægsta verð fyrir tveggja manna herbergi án morgunmats er um það bil 1700 DKK á nótt (Ellehammersvej 20, +45 3250 1501; bókaðu í gegnum www.hilton.com eða reyndu að finna eitthvað ódýrara í gegnum leitarvélarnar). Quality Hotel Airport Dan er í göngufæri frá flugvellinum: til þess að komast þarf að fara yfir hraðbrautina á göngubrúna og ganga svo nokkur hundruð metra norður, en alls tekur það u.þ.b. 15 mínútur. Umsagnir á TripAdvisor gefa í skyn að dvöl á Quality Hotel Dan sé allt í lagi en samt ekkert sérstakt tilhlökkunarefni en verðið er ásættanlegra og hótelið er nær Kastrup-flugvellinum en sum hótel sem kalla sig flugvallarhótel. Ég fann tveggja manna herbergi án morgunmats á um það bil 800-1000 DKK á vefsíðunni, ódýrara ef þú ert til í að skuldbinda þig og breyta ekki bókuninni (Kastruplundgade 15, +45 3251 1400, http://www.choicehotels.no/hotels/hotel?hotel=DK021).

Þeir sem vilja gista á hóteli geta einnig tekið neðanjarðarlestina eða leigubíl frá flugvellinum á ódýrara hótel í miðbænum eða í öðrum úthverfum. Cab Inn City er 350 herbergja ódýrt hótel á Mitchellsgade 14, ekki langt frá Tivolí og lestarstöðinni (Verð: Eins manns 545 DKK, tveggja manna 675 DKK, +45 3346 1616, www.cabinn.dk, city@cabinn.com).

Vefsíða flugvallarins: www.cph.dk. Neðanjarðarlestin fer á milli flugvallarins og miðbæjarins.

Samgönguáætlanir: www.dsb.dk, eða www.m.dk fyrir neðanjarðarlestina.

LONDON STANSTED

Auðveldasta leiðin er að bóka á Radisson SAS London Stansted, 500 herbergja hóteli sem er tengt flugstöðinni með göngubrú. Ég hef gist þar sjálfur og það er engin fyrirhöfn, þó að það sé ekki sérstaklega ódýrt. Lægsta herbergjaverðið er á bilinu £99-109 fyrir einn eða tvo, án morgunmats, en lestu smáa letrið vel varðandi afbókunargjöld (Waltham Close, London Stansted Airport, Essex, CM24 1PP, England, +44 1279 661012, info.stansted@radissonsas.com, www.stansted.radissonsas.com).

Það eru mörg lítil gistihús kringum Stansted sem bjóða upp á lægri verð og ýmis konar hjálp með því að komast frá flugvellinum og til baka. Það er ekki hægt að vera nær flugvellinum en með veru í gistiheimilunum í þorpinu Takeley, sem er í tveggja kílómetra fjarlægð frá flugstöðinni. Það eru þrjú gistihús sem hafa fengið góðar umsagnir — þau eru öll bresk "B&Bs" sem þýðir að morgunmatur (sem er oftast stór) er innifalinn:

 • Pussy Willow hefur þrjú herbergi, öll með sérbaði (Verð: Eins manns £40-50, tveggja manna £50-60, kreditkort tekin, netaðgangur, gestir sóttir ókeypis á flugvöllinn; Mill House, The Street, Takeley, Nr Bishops Stortford, CM22 6QR, +44 1279 871609, enquiries@thepussywillow.co.uk, www.thepussywillow.co.uk).
 • High Trees Bed & Breakfast er með fjögur herbergi og eitt þeirra er með sérbað (Verð: Eins manns £35, tveggja manna £49-55, engin kreditkort tekin, ókeypis netaðgangur; Parsonage Road, Takeley, Essex CM22 6QX, +44 1279 871306, GSM +44 7767 431491, jeanhightrees@aol.com, www.stansted-bandb.co.uk).
 • Oak Lodge Luxury Bed & Breakfast, um það bil einn kílómetra frá þorpinu, er með þrjú herbergi, öll með sérbaði (Verð: Eins manns "frá" £50, tveggja manna "frá" £60, engin kreditkort tekin, netaðgangur; Jacks Lane, Stansted, Hertfordshire CM22 6NT, +44 1279 871667, GSM +44 773 451 6995, oaklodgebb@aol.com, www.oaklodgebb.com).

Val til vara: Ég hef gist í Phoenix Lodge, sem er 11 herbergja gistihús rekið af Hamid og Zölmu í Bishop's Stortford, ekki langt frá flugvellinum. Það þarf að borga £1.80 í strætó eða £12 fyrir leigubíl frá flugvellinum. Phoenix Lodge er ekki sérstaklega huggulegt en það dugði til en það þarf að koma fyrir kl. 23:00 en þá lokast dyrnar (Verð: Eins manns með baði £39-50, tveggja manna með baði £55-59, þriggja/fjögurra manna £59-75, 2% í viðbót fyrir kreditkort, tvö eins manns herbergi án sérbaðs á lægra verði, morgunmatur í nesti innifalinn, þráðlaust net, afbókanir þurfa að berast með tveggja sólarhringa fyrirvara; 91 Dunmow Road, Bishop's Stortford, Hertfordshire, CM23 5HF, +44 1279 659780, bookings@phoenixlodge.co.uk, www.phoenixlodge.co.uk).

Vefsíðan http://londontoolkit.com/travel/stansted_hotels.htm er með gott yfirlit yfir aðra gistimöguleika.

Flugvallarvefsíðan: www.stanstedairport.com

Að fara á milli Stansted og London: Það er mikið fjallað um Stansted Express lestina sem er beint undir flugstöðinni (£18 aðra leið) en að taka rútuna inn í London er jafn hentugt og miklu ódýrara (£10.50 til Victoria Station hjá National Express, £9 hjá Terravision, afsláttur er veittur fyrir miða sem er keyptur fram og til baka, upplýsingar um fleiri rútufyrirtæki á vefsíðu flugvallarins).

LONDON HEATHROW

Eins og alltaf fær maður meira með því að leita aðeins fjær flugvellinum. Á vefsíðunni http://londontoolkit.com/travel/heathrow_hotels.htm er að finna sérstaklega góða úttekt á gistimöguleikum í kringum Heathrow og hvernig að komast má þangað með strætó, neðanjarðarlest og á leigubíl.

Jurys Inn Heathrow er 364 herbergja hótel sem er svolitið einangrað en það er auðvelt að komast þangað frá flugvellinum og auðvelt að fara þaðan inn í miðbæinn. Vefsíðan útskýrir hvernig að fara frá flugvellinum til hótelsins með Hoppa H9 flugvallarskutlinu (£4), strætó #285 (ókeypis), eða neðanjarðarlest. Eins manns og tveggja manna herbergi kosta um það bil £70. Það tekur þrjár mínútur að labba á milli hótelsins og Hatton Cross stoppistöðvar neðanjarðarlestarinnar; hótelið sést ekki frá stoppistöðinni (Eastern Perimeter Road, Hatton Cross, Hounslow, Heathrow TW6 2SR, England, +44 20 8266 4664, heathrowhotels.jurysinns.com).

Minni fjölskyldurekinn gististaður í þorpi nálægt flugvellinum er Harmondsworth Hall, 12-herbergja gisthús sem býður upp á eins manns herbergi fyrir £70 og tveggja manna herbergi fyrir £80 (öll með sérbaði og morgunmat). Leigubíll frá Heathrow kostar £8-9 en best er að hringja í staðarleigubíl í +44 1895 444333 frekar en að nota leigubíla á flugvellinum (Summerhouse Lane, West Drayton UB7 0BG, England, +44 208 759 1824, elaine@harmondsworthhall.com, www.harmondsworthhall.com). Þetta er ágætis valkostur fyrir þá sem eru með bílaleigubíl en ekki besti kosturinn fyrir þá sem ætla að fara mikið inn í London, vegna þess að það þarf að taka strætó í West Drayton og svo lest inn í Paddington Station (60 mínútna ferð).

Tvö dýr hótel eru tengd beint inn í flugstöðvarnar í Heathrow. Hilton London Heathrow er tengt við Terminal 4. Það má búast við að herbergi kosti hið minnsta £170 (+44 208 759 7755, www.hilton.co.uk/heathrow). Sofitel, sem er 605 herbergja hótel, er tengt við nýju flugstöðina (Terminal 5) og herbergi án morgunmats kostar um £150 (+44 208 757 7777, www.sofitelheathrow.com). Afslættir eru í boði hjá báðum hótelum ef þú borgar fyrirfram og afsalar þeim réttindum að afbóka.

Vefsíða flugvallarins: www.heathrowairport.com

Að fara á milli Heathrow og London: Þó að hún tekur sinn tíma, neðanjarðarlestin er ódýrasta leiðin til Heathrow og stoppar á öllum flugstöðum. Það kostar um það bil £4 inn í allar stoppistöðvar í miðbænum, en Heathrow Express, sem stoppar bara á Paddington, kostar £15. Önnur hvor neðanjarðarlest stoppar við Terminal 4 og önnur hvor við Terminal 5.

BERLÍN

Bæði Icelandair og Iceland Express fljúga nú til Schönefeld flugvallarins í Berlín og þess vegna er borgin að verða mikilvægari stoppistöð fyrir Íslendinga á ferð í útlöndum.

Það er ekkert hótel á flugvallarsvæðinu sjálfu, ekki ennþá að minnsta kosti. Ágætt hótel sem er hins vegar að finna mjög nálægt því er Hotel Albergo Schönefeld, en það er aðeins í 5-10 mínútna göngufæri frá flugstöðinni; ef þú kemur út í áttina að S-Bahn lestarstöðinni, þú verður að beygja til vinstri (í suðvesturátt) meðfram aðalveginum sem liggur samhliða lestarteiningunum. Tveggja manna herbergi eru auglýst á €79 og morgunmatur kostar €7.50 á mann í viðbót, en reyndu að finna eitthvað ódýrara á leitarvélunum. Hótelið stendur á milli lestarteinanna og fjólfarinnar götu, þannig að þetta er ekki besti staðurinn til að sofa með opin glugga (Wassmanndorfer Chaussee 2, +49 30 634 840, www.albergo.de).

Annar valkostur er Leonardo Airport Hotel Berlin Schönefeld sem býður upp á 151 herbergi. Hótelið er dýrara og ekki í göngufæri frá flugvellinum en það auglýsir ókeypis skutl til og frá vellinum. Það er rétt hjá Grünbergallee stoppistöðinni á S-Bahn (Verð: Tveggja manna um €109, morgunmatur €10 á mann, reyndu að finna lægri verð á netinu; Schwalbenweg 18, +49 30 679 020, http://www.leonardo-hotels.com/Airport_Berlin_Schoenefeld_Hotel).

Leið S9 í S-Bahn lestarkerfinu fer beint frá Schönefeld inn í miðbæ Berlínar. Mér finnst enn gaman að gista í litlu hótelunum og gístihúsunum kringum Savignyplatz lestarstöðina, ekki langt frá Bahnhof Zoo í Vestur-Berlín. Uppíhaldsstaðurinn minn — ég hef gist þar mörgum sinnum þegar ég hef verið leiðsögumaður með hópa en einnig einn — er Pension Peters, sem er rekin af sænsk-þýsku hjónunum Anniku og Christoph Steiner (Verð: Eins manns €58, tveggja manna €78, þau hafa einnig örfá ódýrari herbergi þar sem deila verður salerni en hafa sérsturtu; Kantstrasse 146, +49 30 312 2278, info@pension-peters-berlin.de, www.pension-peters-berlin.de).

Vefsíða Schönefeld flugvallarins: www.berlin-airport.de (vefsíðan er líka fyrir Tegel flugvöllinn). Langferðarlestir stoppa ekki við Schönefeld lestarstöðina, þannig að það þarf að skipta um lest í Berlin Hauptbahnhof til að fara langar leiðir.

FRANKFURT

Ef þú þarft að gista vegna flugs í Frankfurt, hafðu þá í huga að það er mjög einfalt og stutt að taka lestina (S-Bahn) inn í Frankfurt Hauptbahnhof (aðallestarstöðina) og að það er fullt af hótelum kringum lestarstöðina á góðu verði. Flugstöðinni er líka tengd beint inn í langferðalestarkerfið í Þýskalandi, þannig að með klukkutíma lestarferð er hægt að gista á allt öðrum og áhugaverðari stað.

Í þorpinu Kelsterbach, sem er hinum megin við hraðbraut flugstöðvarinnar mæli ég með Airport Hotel Tanne, sem er 36 herbergja, rólegt og þokkalegt, og í íbúðahverfi (Verð: Eins manns €62-68, tveggja manna €82-90, €85 og €120 þegar ráðstefna er í gangi, morgunmatur €10 á mann, Tannenstrasse 2, 65451 Kelsterbach-Süd, +49 6107 9340, info@airporthoteltanne.de, www.airporthoteltanne.de). Strætóleið 73 frá flugvellinum stoppar nálægt hótelinu (5-10 mínútna gönguleið) en það er sennilega betra fyrir þig að hringja í leigubíl frá Kelsterbach í síma +49 6107 4141 til að láta sækja þig (leigubílar á flugvellinum vilja helst ekki fara svo stuttar leiðir). S-Bahn-stöðin í Kelsterbach er ein stoppistöð frá flugvellinum á leiðunum 8 og 9 (í áttina að Mainz), en það tekur 15 mínútur að ganga frá lestarstöðinni til hótelsins.

Eina hótelið sem er nákvæmlega á flugvellinum er fáranlega dýrt: 1000-herbergja Sheraton Frankfurt Hotel & Towers (+49 69 69770), sem tengt er með loftbrú við efstu hæð í Terminal 1.

Vefsíða Frankfurt flugvallarins: www.airportcity-frankfurt.com.

PARÍS

Íslendingar á leið til Parísar ættu endilega að skoða vefsíðuna www.parisardaman.com — Kristín Jónsdóttir, sem býr í París ásamt franska manni sínum og tveimur börnum, rekur vefsíðuna. Krístin býður upp á gönguferðir í París fyrir Íslendinga (reglulega á sumrin). Vefsíðan er með fjölmargar upplýsingar um allt það sem íslenskt er og er í boði í París, góðar gistitillögur og svo krækjur við vefsíður um franska sveitabæ sem Íslendingar leiga út. Kristín sendir út einnig fréttabréf. Þeir sem eru á leiðinni aðeins sunnar á bóginn gætu skoðað frakklandsferdir.is, reknar af Louisu Stefaníu Djermoun og Arnaldi Hauki Ólafssyni, sem skipuleggja ferðir í Languedoc-Roussillon.

Það eru mörg ágæt hótel í miðbæ Parísar sem taka €80-90 fyrir gott tveggja manna herbergi með baði og morgunmat. Góður listi yfir þau er að finna á www.parisardaman.com.

Fyrir þá sem vilja gista nálægt flugvellinum, þá hef ég góða reynslu af Premiere Classe Villepinte Parc des Expositions — ég verð þó að taka það frá að þetta hótel er ekki fyrir alla, einkum þá sem hugsa mikið um stöðutákn. Herbergi með sérbaði kostaði €26 og það var ókeypis þráðlaust net í forsalnum: ótrúlega ódýrt. Hótelið er í 100 metra fjarlægð frá Parc des Expositions lestarstöðinni á RER B (þetta er síðasta stoppistöðin fyrr en komið er til flugvallarins). Ég myndi ekki kaupa morgunmatinn, sem var svolitið magur. Þetta er hótel án allra lystisemda, þannig að þeir sem eru að leita að slíku, eða huggulegheitum ættu að gista annars staðar. Vefsíðan er www.premiereclasse.com/hotel/en/FRA22131.htm. Frakkar eru með mörg ódýr hótel og það má finna önnur ódýr hótel í París í leitarvélum eins og priceline.com.

ÞÓRSHÖFN Á FÆREYJUM

Nýja áætlun Norrænu fyrir 2009 þýðir að ferðamenn frá Íslandi þurfa ekki lengur að stoppa í Færeyjum á leiðinni til eða frá Danmörku, en hluta ársins (frá miðju júní til seint í ágúst) er ennþá hægt að stoppa í Færeyjum í tvo eða þrjá daga. Á vorin og haustin er einungis hægt að stoppa í heila viku. Vefsíðan www.faroeislands.com býður upp á margar góðar upplýsingar fyrir ferðamenn í Færeyjum.

Fyrir þá sem vilja gista á hóteli: Hotel Streym, nýtt 26 herbergja hótel meðfram ströndinni, í göngufæri frá miðbænum, lítur út fyrir að vera góður kostur (Verð: Eins manns DKK 695, tveggja manna DKK 995, ódýrara utan sumartímans, morgunmatur og netaðgangur innifalinn, Yviri við Strond 19, +298 355 500, booking@hotelstreym.fo, www.hotelstreym.fo). Ef peningar skipta engu máli, það er erfitt að gista á betri stað en í Hotel Hafnia.

Ódýrari gisting í miðbænum er í Bládýpi og Skansin, sem eru rekin af sama fyrirtæki. Bládýpi, í Dr. Jakobsensgøtu, kallar sig farfuglaheimili og gistihús og er með 12 herbergi með sérbaði, sjö herbergi sem deila baði, og þrjú kojuherbergi sem hafa samtals 24 rúm. Skansin, í Jekaragøtu, er gistihús með 4 herbergi með sérbaði og 15 herbergi sem deila bað (Verð: Eins manns DKK 600, DKK 450 ef baðið er deilt; tveggja manna DKK 800, DKK 650 ef baðið er deilt; kojurúm DKK 200; morgunmatur innifalinn á sumrin, eldhús, netaðgangur; Bládýpi +298 500 600, Skansin +298 500 606, www.hostel.fo).

Það er líka tjaldstæði á Yviri við Strond sem er opið frá miðju maí til miðju september (+298 302 425).

Ferðamenn sem eru á bíl geta farið lengra út úr bænum, til dæmis á fallega gistihúsinu og farfuglaheimilinu í Gjógv (www.gjaargardur.fo).

NEW YORK CITY

Ef þú ert í leit að gistingu í New York þá er það býsna erfitt á Manhattan eyju, þar sem miðbærinn liggur. "Ódýr" herbergi á keðjuhóteli kosta um það bil $200 (sjá, til dæmis, www.applecorehotels.com). Það eru til hótel sem eru ódýrari en sum þeirra eru ekki sérstaklega virðuleg. Ferðamenn sem eru til í að deila baði hafa ýmsa valkosti. Hótel nokkurt í miðbænum sem fær góðar umsagnir er Larchmont Hotel — en jafnvel þar kostar tveggja manna herbergi miklu meira en $100 og eins manns herbergi kostar $90-125 (aðeins er hægt að bóka í síma, ekki í gegnum tölvupóst; morgunmatur innifalinn; 27 W. 11th St., +1 212 989 9333, www.larchmonthotel.com). Farfuglaheimilið í New York City er með 600 rúm og er er líka virðulegur staður en rúm er hægt að fá á aðeins $32 á mann. Það er svolitið langt norður frá miðbænum (891 Amsterdam Ave. við West 103rd Street), og karlar og konur eru oft aðskilin (bókað er á vefsíðunni www.hihostels.com).

Ég mæli með því að íhuga það að gista fyrir utan Manhattan. Flestir New York búar búa ekki á Manhattan-eyjunni. Þeir fara í miðbæinn frá úthverfum eins og Brooklyn, Queens, og New Jersey. Ættingjar mínir hafa gist vandræðalaust í Queens á 220 herbergja Pan American Hotel, 79-00 Queens Boulevard (Verð: Herbergi u.þ.b. $115, www.panamhotelnewyork.com). New Jersey er annar valkostur: það eru ódýr hótel í borgum eins og Secaucus sem eru bara í nokkurra mínútna rútuferð frá Port Authority rútumiðstöðinni og í beinni línu ekki langt frá miðbænum. Eitt þeirra er Plaza Motor Inn, sem leigir tveggja manna herbergi á $95 (www.plazamotel.cc). Þetta eru ekki lúxúshótel, þú mátt ekki búast við hálfgerðri forsetasvítu, og hugsanlega þarf baðherbergið á smá endurnýjun að halda. En í dýrri borg eins og New York verður maður að vera bara sáttur við að hafa ásættanlegt þak yfir höfuð. Þeir sem vilja gistingu í eigu Íslendinga geta skoðað www.luxusheimagisting.com, sem býður upp á eitt herbergi með sérbað til leigu í Williamsburg, Brooklyn, á $150 á nótt. Samgöngukort (t.d. vikukort) í New York gilda líka í Queens og Brooklyn (þó ekki í New Jersey), þannig að ekki þarf endilega að borga aukalega fyrir samgöngur með því að gista fyrir utan Manhattan.

Frommer's ferðahandbókafyrirtæki hefur sett hótellista sinn fyrir New York á netið: www.frommers.com/destinations/newyorkcity. Því miður er þessi listi bara fyrir Manhattan, ekki önnur hverfi New York borgar eða New Jersey.

Að sofa nálægt JFK flugvellinum

Ef þig vantar gistingu í aðeins eina nótt á milli þess sem þú flýgur til og frá JFK flugvellinum, þá viltu væntanlega ekki gista í miðbænum heldur einhvers staðar nálægt flugvellinum. Hér fyrir neðan er listi hótela sem eru ekki langt frá flugvellinum og sem hafa fengið góðar umsagnir á netinu. Tveggja manna herbergi kostar venjulega $100-$150 á nótt. Skoðaðu þig um á netinu og reyndu að finna besta verðið. Þetta eru stór og ópersónuleg hótel og það er venjulega ekki talað um gistinótt kringum JFK sem hápunkt ferðarinnar. Minn skilningur er að öll þessi hótel bjóða upp á að skutla farþegum ókeypis frá flugvellinum; það þarf samt að hringja til að vera sótt. Það er stundum ókeypis "courtesy telephone" í flugstöðinni til að hringja í hótelið. Ég vil taka frá að ég hef ekki skoðað þessi hótel persónulega; þessi listi byggist á netrannsóknum.

 • Fairfield Inn Marriott JFK Jamaica, 156-08 Rockaway Boulevard, Jamaica, NY 11434, +1 718 978-3300, marriott.com
 • Courtyard by Marriott JFK, 145-11 North Conduit Avenue, Jamaica, NY 11436, +1 718 848-2121, marriott.com
 • Days Inn JFK, 144-26 153rd Court, Jamaica, NY 11434, +1 718 527-9025, daysinn.com
 • Hilton Garden Inn Queens/JFK, 148-18 134th Street, Jamaica, NY 11430, +1 718 322-4448, www.hiltongardeninn.com
 • Best Western Kennedy Airport, 144-25 153rd Lane, Jamaica, NY 11434, +1 718 977-2100, bestwestern.com
 • Holiday Inn Express At JFK, 153-70 South Conduit Avenue, Jamaica, NY 11434, +1 718 977-3100, ichotelsgroup.com
 • Super 8 JFK Airport, 139-01 Jamaica Avenue, Jamaica, NY 11435, +1 718 658-1866, super8.com

Vefsíða JFK flugvallarins: www.panynj.gov; þá er smellt á "Airports" og svo "JFK."

Að fara á milli flugvallarins og miðbæjarins: Algengasta leiðin er að taka AirTrain lestina, sem stoppar við hverja flugstöð, til Jamaica Station (þetta kostar $5). Í Jamaica Station er skipt um og farið í neðanjarðarlestina, sem kostar $2. Það þarf að kaupa "MetroCard" farmiða sem er endurhlaðanlegt plastkort. Það má líka fara með AirTrain til Howard Beach station og tengjast þar annarri neðanjarðarlestarleið (A) en þetta hentar ekki öllum ferðamönnum. Þeir sem vilja spara $5 geta skoðað að fara til JFK með Q3, Q10, og B15 strætóum, sem stoppa við Terminal 4. Það er líka hraðrúta sem fer inn í miðbæinn fyrir $15, og leigubílar eru alltaf til staðar. Ef þú tekur leigubíl inn í Manhattan, þá er það staðlað gjald, nú $45 (þjórfé og veggjöld á brúm og í göngum ekki innifalin).

BOSTON

Flugið til Boston er styst allra fluga frá Íslandi til Bandaríkjanna. Mín reynsla er sú að það getur verið dálítið erfitt að skipta um flugstöð á flugvellinum (það þarf oft að taka strætó), og úrval tengifluga og sérstaklega ódýrra tengifluga er verra en á JFK. En það er samt ágætt að fljúga til Boston. The Unofficial Guide to Boston & Cambridge, skrifað af nemendum við Harvard háskóla, er mjög fín ferðahandbók um Boston sem er hægt að skoða ókeypis á netinu.

Það er ekki erfitt að finna góða gistingu í Boston sem er í göngufæri við almennar samgöngur fyrir um það bil $100 á nótt (nema kringum háskólaútskriftar). Copley Inn, í Back Bay hverfinu, er með 20 ódýr gistiherbergi, öll með eldhúsi, sem hægt eru að leigja í viku (www.copleyinn.com). B&B fyrir sunnan miðbæinn, rétt hjá rauðu neðanjarðarlestarlínunni, sem fær mjög góðar umsagnir, er Carruth House (www.geocities.com/carruthhouse). Tvö sæmileg gistihús í Cambridge, í göngufæri við Harvard Square, eru Irving House (www.cambridgeinns.com/irving) og A Friendly Inn (www.afinow.com). Lítið, aðeins dýrara hótel í Back Bay er Charlesmark Hotel (www.charlesmarkhotel.com).

Þeir sem þurfa að gista á flugvellinum og geta borgað fyrir að vera í eina hótelinu sem er tengt við flugstöðvarnar eiga að snúa sér að Hilton Boston Logan Airport, sem hefur 599 herbergi. Frá flugstöð A eða E, er best að taka loftbrúna í aðalbílastæðahúsið og þá aðra loftbrú frá bilastæðahúsinu í hótelið. (Icelandair flýgur frá flugstöð E.) Frá flugstöðvum B, C, eða D, geturðu tekið ókeypis strætó til hótelsins. Tveggja manna herbergi kosta frá um það bil $200 á nótt (One Hotel Drive, Boston, Massachusetts 02128, +1 617 568-6700, www.hiltonfamilyboston.com/bostonlogan). (Annað hótel, Hyatt Harborside hotel, auglýsir réttilega að það stendur líka á flugvallarsvæðinu. En það þarf alltaf að taka strætó þangað og hótelið er ekki ódýrara.)

Þeir sem þurfa að gista á flugvellinum og vilja spara aðeins geta gist á ýmsum hótelum innan fárra kílómetra frá flugvellinum sem bjóða upp á að skutla ókeypis á milli hótels og flugvallar. Eitt sem fær góða dóma á netinu er Hampton Inn, með 227 herbergi og auglýst verð um $150 fyrir tveggja manna herbergi (230 Lee Burbank Hwy, Revere, MA 02151, +1 781 286-5665, hamptoninn.com).

Vefsíða Logan flugvallarins: www.massport.com

MINNEAPOLIS-ST. PAUL

Það er ekkert hótel á flugvallarsvæðinu í Minneapolis, en það eru nokkur hótel á sporvagnarlínunni sem fer á milli flugvallarins og Mall of America, sem tekur þrjár stoppistöðvar og níu mínútur (sjá www.metrotransit.org/rail). Leikurinn snýst um að finna eitthvað sem er í ódýrari kantinum en er samt rétt hjá sporvagnastoppistöð þannig að það þarf ekki að ganga of langt.

Hér eru tvö hótel sem eru beint á móti Mall of America á endastöð sporvagnarins. The Days Inn Mall of America er frekar einfalt og alls ekki lúxúshótel en kemur til greina vegna þess að það er ódýrt (Verð: Tveggja manna herbergi um það bil $80 á nótt; 1901 Killebrew Dr., Bloomington, MN 55425, +1 952 854-8400, www.daysinn.com). Country Inn & Suites at Mall of America fær góðar umsagnir en tveggja manna herbergi kostar að minnsta kosti $130 (2221 Killebrew Dr, Bloomington, MN 55425, +1 952 854-5555, countryinns.com). Bæði hótel bjóða upp á að skutla ferðamönnum ókeypis til flugvallarins ef þú vilt ekki eða getur ekki tekið sporvagninn, og bæði bjóða jafnvel upp á akstur í verslunarmiðstöðina fyrir þá sem vilja ekki eða geta ekki labbað þangað.

Vefsíða MSP flugvallarins: www.mspairport.com

SÍÐASTA BLAÐSÍÐAN

Á þessari síðu er ég að safna ýmsum upplýsingum fyrir íslenska ferðamenn sem eiga ekki heima annars staðar.

RÓM: Kristinn Pétursson rekur Rómarvefinn, www.romarvefurinn.is, sem er með fullt af góðum upplýsingum um borgina.

SKOTLAND: Inga og Snorri, sem búa í Glasgow, bjóða upp á hópferðir, gönguferðir, og aðra þjónustu fyrir íslenska ferðamenn í Skotlandi (sjá www.skotganga.co.uk).

FRIEDRICHSHAFEN: Þessi litli flugvöllur, sem Iceland Express notar, er sérstaklega hentugur. Þú gengur út út flugstöðinni og eftir nokkur skref ertu á lestarstöðinni sem heitir Friedrichshafen Flughafen. Þó að lestarstöðin sé ekki á stofnbraut, það eru beinar hraðlestir til Basel, Ulm, og Schaffhausen og þaðan er hægt að taka lest til allra áfangastaða í Suður-Þýskalandi og Sviss.